Lena og Eining kaldastar á svellinu

Konur er svellkaldar ef því er að skipta. Og ekkert síður en karlar. Það sýndu þær á hinu árlega ísmóti “Svellkaldar konur” sem fram fór í Skautahöllinni í Laugardal á laugardaginn var. Lena Zielinski á Einingu frá Lækjarbakka sigraði í opnum flokki og þær stöllur voru útnefndar glæsilegasta par mótsins af dómurum.

Arnar Bjarki og Rakel Natalie jöfn á toppnum

Meistaradeild UMFÍ var hleypt af stokkunum á laugardaginn var. Fimmtán keppendur skráðu sig í deildina, sem er töluvert færra en búist var við. Á meðal keppenda eru kunnir knapar úr röðum æskufólks. Arnar Bjarki Sigurðsson og Rakel Natalie Kristinsdóttir eru efst og jöfn að stigum eftir fyrstu umferð. Rakel sigraði í tveimur greinum, fjórgangi og tölti, en Arnar varð efstur í fimmgangi og í öðru sæti í tölti.