Starfsreglur um knapaval

 

1.gr.
Nefndin skal þannig skipuð: Stjórn LH skipar þriggja manna valnefnd ár hvert. Formaður nefndarinnar kemur úr stjórn LH. Skrifstofa aðstoðar nefndina eftir því sem hún óskar með söfnun gagna um keppnisárangur knapa, ræktunar og keppnisbúa sem og agamál.   

2.gr.
Nefndin er á ábyrgð stjórnar LH og skal skipa hana til eins árs í senn, ekki síðar en í apr/maí ár hvert. Skilar hún af sér tillögu að vali á knöpum ársins til stjórnar LH eigi síðar en fjórum vikum fyrir Uppskeruhátíð hestamanna hverju sinni. Fundargerðir og skýrslur nefndarinnar skulu varðveittar á skrifstofu LH. Nefndin er bundin af ákvörðun stjórnar um hve marga knapa skuli tilnefna og heiðra hverju sinni.

3.gr.
Valdir skulu: íþróttaknapi ársins, skeiðknapi ársins, gæðingaknapi ársins, kynbótaknapi ársins, efnilegasti knapi ársins, og knapi ársins. Tilnefndir skulu fimm knapar í hverjum flokki. Þá eru, þegar tilefni þykir til, veitt sérstök heiðursverðlaun. Þau eru veitt eldri hestamanni/konu fyrir framlag sitt til hestamennsku í sinni víðustu mynd. Valnefnd getur sent inn til stjórnar LH nöfn unglinga eða ungmenna sem hafa staðið sig frábærlega á árinu en eru búnir að hljóta bikarinn efnilegasti knapinn. Þessir einstaklingar eru verðlaunaðir sér.

4.gr.
Við val á knöpum ársins skal tekið tillit til árangurs á árinu: Ástundunar, prúðmennsku og íþróttamannlegrar framkomu innan vallar sem utan, og reglusemi. Knapi ársins í hverjum flokki er valinn sá sem talinn er hafa náð framúrskarandi árangri á sviði reiðmennsku og frammistaða hans sé álitin hestaíþróttinni til framdráttar, hvort sem um er að ræða eitt afgerandi afrek, eða frábæran árangur í mörgum greinum á mörgum mótum. Efnilegasti knapinn skal valinn úr ungmennaflokki, en sé það ekki nokkur kostur að tilnefna ungmenni skal litið til unglingaflokks. Sérstaklega skal höfð að leiðarljósi fyrirmynd fyrir unga reiðmenn í einu og öllu. Knapi getur aðeins hlotið þennan titil einu sinni. Knapi ársins hverju sinni er valin úr þeim hópi allra knapa sem eru tilnefndir hverju sinni.

5.gr.
Við val þeirra sem viðurkenningar hljóta skal gaumgæfa árangur jafnt hér heima sem erlendis (WR mót og stórmót). Nefndin þarf að rökstyðja hverja tilnefningu. Nefndarmenn eru bundnir trúnaði um allt sem rætt er innan nefndarinnar og starfar hún fyrir stjórn LH eingöngu. Hún er kölluð saman af formanni eins oft og þurfa þykir. Nefndin skal koma með tillögur að kynningu knapavals til stjórnar, svo og ef, henni þykir þörf á breytingum varðandi vinnulag nefndarinnar.

6.gr.
Sú ræktun sem skilar bestum árangri í keppni á vegum LH og FEIF hlýtur titilinn Ræktun keppnishrossa, þ.e. fyrir frábæran árangur hrossa í keppni, árangurs sem eftir er tekið. Til verðlaunanna skulu telja allar þær keppnisgreinar sem keppt er í undir merkjum LH og FEIF. Litið skal til árangurs nýliðins keppnistímabils hér heima og erlendis.