Tilgangur og markmið

Tilgangur og markmið

LH er æðsti aðili hestaíþrótta á Íslandi. Auk hefðbundinnar keppni, æfinga og þjálfunar til líkamlegrar heilsuræktar, samanber lög ÍSÍ, er hlutverk LH í meginatriðum:

• að stuðla að, styðja og efla hefðbundna almenna ástundum, keppni, æfingar og þjálfun hesta og líkamlega þjálfun, heilsurækt og menntun knapa þeirra í samræmi við lög þessi og lög ÍSÍ. Skal velferð hestsins ávallt höfð í forgrunni við alla almenna ástundun og í öllum hestaíþróttum;
• að hafa yfirstjórn mála sem varða hestaíþróttir;
• að vinna að eflingu hestaíþrótta í landinu;
• að sinna hagsmunamálum sem tengjast hestaíþróttum svo sem á sviði ræktunarmála, tamninga, samgöngu- og ferðamála, og landnýtinga- og umhverfismála;
• að hafa yfirstjórn og vinna að eflingu hestamennsku m.a. með fræðslu, útbreiðslu- og kynningarstarfsemi;
• að vera málsvari hestamanna jafnt innanlands sem erlendis;
• að eiga samstarf við önnur samtök er sinna hagsmunamálum hestamanna, svo sem á sviði ræktunarmála, tamninga, samgöngumála, ferðamála, landnýtingar og umhverfismála á vegum ríkis og sveitarfélaga;
• að koma fram gagnvart opinberum aðilum;
• að vinna að stofnun nýrra sérráða og starfshópa;
• að sjá um að til staðar séu nauðsynlegar reglur um keppni í hestaíþróttum;
• að halda utan um menntun, löggildingu, endurmenntun og úthlutun dómara;
• að ráðstafa landsmótum og staðfesta met;
• að vera fulltrúi hestaíþrótta gagnvart erlendum aðilum og sjá um að reglur varðandi greinina séu í samræmi við alþjóðareglur þar sem það á við.

LH starfar að öllu leyti sjálfstætt og er hlutlaust varðandi stjórnmál og trúarbrögð. LH skal gæta jafnræðis og jafnréttis. Skulu allir vera jafnir fyrir lögum og reglugerðum LH og njóta réttinda án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

LH skal gæta samræmis við reglur og ákvarðanir ÍSÍ og FEIF. Lög, reglur og ákvarðanir LH eru bindandi fyrir alla félagsmenn LH, svo sem keppendur, dómara, þjálfara, forystumenn og aðra þá sem starfa innan vébanda aðildarfélaga LH.

Úr lögum og reglum LH