Hestadagar 2018

Hestadagar 2018

Hestadagar verða haldnir um land allt dagana 28. apríl til 1. maí næstkomandi. Landssamband hestamannafélaga stendur að viðburðunum í góðu samstarfi við Íslandsstofu og hestamannafélögin um land allt.

Hestadagar snúast í stuttu máli um þrennt:

hestadagar

Skrúðreið kl. 12:30 í miðbæ Reykjavíkur laugardaginn 28. apríl
Verður með svipuðu sniði og síðustu ár. Skrúðreiðin vekur gríðarlega jákvæða eftirtekt í miðborginni og er mikil lyftistöng fyrir mannlífið þar. Skrúðreiðin telur um það bil 150 hesta og jafnmarga menn og í fararbroddi fer fjallkonan í skautbúningi ásamt fylgdarmanni. Á eftir þeim kemur hestvagn og oftar en ekki hefur borgarstjóri, ráðherra og nú síðast forstöðumaður höfuðborgarstofu setið í honum, þó reyndar hafi núverandi borgarstjóri einu sinni komið ríðandi með, sem var að sjálfsögðu toppurinn, enda hann hestamaður sjálfur og hans fjölskylda. Reiðin hefur stöðvað við Hallgrímskirkju og reiðmenn stigið af baki, hlustað á söng og þar hefur t.a.m. borgarstjóri sett Hestadaga formlega. Á þessum tímapunkti gefst áhorfendum; ferðamönnum og almenningi, kostur á því að koma nær hestunum, klappa þeim og taka myndir. Þetta er vinsælt og margar „sjálfur“ verða til við þessi augnablik. Síðan er stigið á bak aftur og haldið niður Skólavörðustiginn, Bankastræti, yfir Lækjargötuna, Austurstræti, Pósthússtræti, Vonarstræti og stoppað aftur við Austurvöll. Þar verður lítið tónlistaratriði og aftur er fólki leyft að koma nær, klappa hestunum og hitta reiðmennina, sem eru á öllum aldri, oftar en ekki í íslenskum lopapeysum og brosandi. Eftir stoppið er haldið af stað Tjarnargötuna og í gegnum Hljómskálagarðinn á stígum og áfram að BSÍ og aftur á byrjunarreit að bílaplaninu við Læknagarð.

æskan og hesturinn 

Fjölskyldusýningin Æskan & hesturinn í Reiðhöllinni í Víðidal
Sýningin hefur verið haldin á sama stað í næstum tvo áratugi. Markmið hennar er að skapa vettvang fyrir yngstu iðkendurna í hestamennsku til að sýna sína reiðmennsku, framfarir, félagsskapinn og menninguna. Auk þess er sýningin frábær vettvangur til að kynna hestamennskuna sem lífsstíl og íþrótt fyrir almenningi, þar sem aðgangur er ókeypis á meðan húsrúm leyfi. Fjölskyldur geta því safnast saman í reiðhöllinni í Víðidal, horft á börn á aldrinum 2-18 ára sýna listir sínar í hinum ótrúlega fjölbreyttu sýningaratriðum sem boðið er upp á á hverju ári. Allur undirbúningur og skipulag sýningarinnar er unnið í sjálfboðavinnu og hópurinn sem kemur að verkefninu því stór og samheldinn.

horsesoficeland

Dagur íslenska hestsins 1. maí
- alþjóðlegur dagur íslenska hestsins #horsesoficeland

Fólk um allan heim kynnir íslenska hestinn fyrir vinum og kunningjum, hestamannafélögin um land allt eru með opin hús og gera sér glaðan dag með gestum og gangandi, kynna hestinn og hestamennsku fyrir almenningi og bjóða jafnvel fólki á hestbak og/eða teyma undir börnum.

LH og Íslandsstofa hvetja öll hestamannafélög til að opna húsin sín, kynna hestamennskuna í sinni fjölbreyttu mynd í sínu byggðarlagi, hafa gaman og njóta dagsins. Nota tækifærið og slá á létta strengi! Tilvalið er að setja upp viðburð á Facebook til auglýsingar. Myndefni frá deginum má gjarnan deila á samfélagsmiðlum og merkja með myllumerkinu #horsesoficeland. 

Hestamannafélag Sörli var með flotta dagskrá árið 2016 þar sem börnin settu saman prógramm og félagar gerðu sér glaðan dag í félagsreiðtúr – sjá myndskeið á YouTube hér.

Auglýsingar & kynningar

Viðburðirnir verða auglýstir í blöðum og á vefmiðlum. Hestamannafélögin eru hvött til að kynna Hestadaga vel á sínum félagssvæðum og opna aðgengi almennings á sinn hátt í sínu félagi og byggðarlagi. Einnig hvetur verkefnastjórn Hestadaga alla til að merkja allar myndir sem teknar eru og tengjast viðburðunum með myllumerkinu #horsesoficeland.

Tengiliðir
Hilda Karen Garðarsdóttir, verkefnastjóri LH, hilda@lhhestar.is, 897-4467
Þórdís Anna Gylfadóttir, verkefnastjóri Horses of Iceland/Íslandsstofu, thordis@islandsstofa.is, 868-7432

LH & Íslandsstofa