Fjörumóti Snæfellings frestað

Fyrirhugað fjörumót Snæfellings sem halda átti næstkomandi laugardag fellur niður vegna þess að aðstæður á vettvangi eru ekki hagstæðar, ótraustur ís á lækjum sem þarf að fara yfir, auk klakahröngls á fjörum.  Kannað verður með að halda þetta mót síðar þegar betur viðrar. Nefndin.

Svarfdælska mótaröðin 2.umferð

Þá fer að líða að annari umferð svarfdælsku mótaraðarinnar. Mótið verður með sama sniði og fyrsta umferð. Keppt verður í opnum flokki í tölti og fjórgangi, tölti og þrígangi hjá unglingum og þrígangi hjá börnum. Mótið verður haldið 19. mars og hefst kl 20:00 í Hringsholti.

Átök Þorkels og Sveins á ráðstefnu um Sauðárkrókshrossin

Um hvað tókust þeir á, Þorkell Bjarnason, hrossaræktarráðurnautur, og Sveinn Guðmundsson, hrossaræktarmaður á Sauðárkróki? Á ráðstefnu um Sauðárkrókshrossin, sem haldin verður á Sauðárkróki laugardaginn 21. mars, mun Bjarni Þorkelsson á Þóroddsstöðum rýna í samskipti og átök þessara stórskipa í íslenskri hrossaræktarsögu.

Hrossaræktarfundur í Þingborg

Opinn fundur á vegum Félags hrossabænda og Bændasamtaka Íslands um málefni hrossaræktarinnar verður haldinn í Þingborg í kvöld  11. mars kl. 20:30.

Missi hestur skeifu skal hægja niður á fet

Af gefnu tilefni skal vekja athygli á því að á Landsþingi LH 2008 á Kirkjubæjarklaustri var samþykkt breyting á reglum um skeifur (grein 8.1.4.3.) Samkvæmt henni skal keppandi hægja niður á fet og ljúka keppni þannig. Á Ís-Landsmóti á Svínavatni, sem haldið var um síðustu helgi, reið Sigurður Sigurðarson á tölti eftir að hestur hans hafði misst undan sér skeifu. Hann var þó ekki dæmdur úr leik.

Nýr knapi í Meistaradeild VÍS

Þær breytingar urðu nú um helgina á liði Top Reiter að Páll Bragi Hólmarsson hefur hætt keppni í Meistaradeild VÍS. Í stað hans kemur inn varaknapi liðsins Guðmundur Björgvinsson. Guðmundur er flestum hestamönnum vel kunnugur en hann hefur tekið þátt í keppni og kynbótasýningum í mörg ár.

Ljósmyndir frá Svínavatni á lhestar.is

Safn ljósmynda frá Svínavatni er komið á www.lhhestar.is. Smelltu á "Ljósmyndir" hér til vinstri á síðunni og þá koma upp flokkar ljósmynda sem hægt er að velja úr. Ljósmyndari er Jens Einarsson: frettir@lhhestar.is

Lokaskráningardagur á málþing um ágrip er 11. mars!

Hestamenn eru minntir á að lokaskráningardagur á Málþingið "Út með ágrip" er á morgun, miðvikudaginn 11. mars. Skráning fer fram á endurmenntun@lbhi.is og í síma 433 5000. Ekkert skráningargjald. Hægt verður að kaupa mat fyrir kr. 1.500, sem greiðist á staðnum, en taka þarf fram við skráningu hvort viðkomandi ætlar að vera í mat eður ei.

Gæðingadómarar fá sendan DVD disk

Gæðingadómarafélag LH hefur sent félagsmönnum sínum DVD disk ásamt kynningarbréfi um upprifjunarnámskeið sem haldin verða nú í mars. Þeir gæðingjadómarar sem af einhverjum ástæðum fá ekki diskinn í pósti í þessari viku eru beðnir um að hafa samband við skrifstofu LH.

Tilkynning til íþróttadómara

Vegna fjölda áskorana hefur stjórn HÍDÍ ákveðið að gefa þeim íþróttadómurum sem  komust ekki  á    áður auglýst samræmingarnámskeið, kost á því að mæta á námskeið þriðjudaginn 17.mars 2009 KL 20.00 í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal.