Stofnun Landssambands hestamannafélaga

Landssamband Hestamannafélaga var stofnað árið 1949.

Stofnun Landssambandsins hafði þó nokkurn aðdraganda. Fyrsta hestamannafélagið var stofnað árið 1922, Fákur í Reykjavík og hafði Fákur forystu um málefni hestamanna á þessum tíma. Næstu ár á eftir voru fleiri hestamannafélög stofnuð vítt um landið; Glaður í Dalasýslu og Léttir á Akureyri voru stofnuð árið 1928, Sleipnir í Árnessýslu 1929, Faxi í Borgarfirði og Léttfeti á Sauðárkróki 1933.

Á aðalfundi Fáks árið 1944 var kosin þriggja manna nefnd til þess að undirbúa stofnun sambands fyrir hestamannafélögin í landinu, í nefndina voru kjörnir Gunnar Bjarnason ráðunautur, Bjarni Eggertsson frá Laugardælum og Einar E. Sæmundsen, skógarvörður og var þeim falið að semja drög að lögum fyrir sambandið. Þeirra starf leiddi af sér að stofnuð var nefnd til að endurskoða frumvarp að lögum sambandsins sem fyrri nefnd samdi og til að annast undirbúning stofnfundar sem boðað var til þann 18. desember 1949.

Til stofnfundarins mættu fulltrúar frá eftirtöldum félögum: Fáki Reykjavík, Faxa Borgarfirði, Geysi Rangárvallasýslu, Léttfeta Sauðárkróki, Neista Akranesi, Neista Austur-Húnavatnssýslu, Sindra Vestur-Skaftafellssýslu, Sleipni Árnessýslu, Smára Hreppum og Skeiðum, Stíganda Skagafirði og Sörla Hafnarfirði.

Á stofnfundinum voru lög félagsins samþykkt og kosið til stjórnar. Fyrsta stjórn Landssambands hestamannafélaga var skipuðu eftirfarandi:

H. J. Hólmjárn, formaður
Ari Guðmundsson, ritari
Pálmi Jónsson, gjaldkeri
Hermann Þórarinsson, meðstjórnandi
Steinþór Gestsson, meðstjórnandi
Bogi Eggertsson, varaformaður
Kristinn Hákonarson, vararitari
Björn Gunnlaugsson, varagjaldkeri
Sigurdór Sigurðsson, varameðstjórnandi
Ólafur Sveinsson, varameðstjórnandi
Endurskoðendur: Lúðvik C. Magnússon og Sólm. Einarsson

Eitt af fyrstu verkefnum fyrstu stjórnar LH var að undirbúa fyrsta Landsmót LH sem haldið var á Þingvöllum dagana 6. - 9. júlí 1950.

(Heimild: Í morgunljómann... Saga LH. í 35 ár. Höf: Steinþór Gestsson á Hæli, 1987.)