Keppnisnefnd

Reglugerð keppnisnefndar

1.  grein
Keppnisnefnd LH er skipuð fimm mönnum sem stjórn LH skipar strax að loknu landsþingi, sbr. lög LH. Stjórn LH tilnefnir formann sem sér um boðun funda.
Fyrsti fundur nefndarinnar skal vera innan mánaðar frá skipun hennar.

2.  grein
Keppnisnefnd skal fjalla um mál sem stjórn LH vísar til hennar en hefur að öðru leyti frumkvæðisrétt að málefnum sem undir hana heyra. Hlutverk nefndarinnar er að endurskoða reglugerðir LH er varðar keppnir og komi með tillögur að breytingum ef þörf er á. Nefndin skal jafnan hafa hliðsjón af reglum ÍSÍ og öðrum reglugerðum sem LH hefur samþykkt. Þá skal nefndin sjá um að samþykktir landsþinga falli að lögum og reglum LH.

3.  grein
Keppnisnefnd skal skila álitsgerð sinni og tillögum að reglugerðabreytingum til stjórnar LH, nægilega snemma fyrir landsþing LH þannig að þær megi leggja fram með eðlilegum fyrirvara. Einnig skal nefndin fjalla um reglugerðabreytingar sem lagðar eru fyrir landsþing og skila áliti til þingsins. Keppnisnefnd skal skila áliti til stjórnar LH um einstakar og augljósar villur í texta, endurtekningar og þversagnir í lögum og reglugerðum, sem gætu orðið tilefni til deilna og/eða mistúlkunnar.

4.  grein
Keppnisnefnd skal fara yfir skýrslur yfirdómnefnda og framkvæmdanefnda móta til glöggvunar og yfirsýnar á ágreiningsefnum sem upp kunna að koma, svo og vandamálum sem verða í mótaframkvæmd. Skal nefndin gera tillögur til stjórnar LH um breytingar á reglum til að koma í veg fyrir slík ágreiningsefni og vandamál.

5.   grein
Keppnisnefnd komi eins oft saman og þurfa þykir. Nefndin haldi fundargerðabók sem liggi frammi á stjórnafundum LH.