Æskulýðsnefnd

Reglugerð æskulýðsnefndar

1. grein.

Æskulýðsnefnd starfar samkvæmt lögum LH. Starfstími nefndarinnar er til tveggja ára í senn. Nefndin skal skipuð 5 - 7 aðilum sem stjórn LH tilnefnir. Stjórn LH tilnefnir formann sem sér um boðun funda í samráði við skrifstofu. Fyrsti fundur nefndarinnar skal haldinn innan mánaðar frá skipun hennar. Að öðru leyti kemur nefndin saman eftir þörfum. Fulltrúi úr stjórn LH er tengiliður við nefndina. Æskilegt er hann sitji fundi reglulega.

2. grein.

Hlutverk Æskulýðsnefndar er að efla fræðslu um æskulýðsmál, gæta hagsmuna og jafnræðis æskunnar í íþróttinni, auka fræðslu æskulýðsfulltrúa um allt land og styðja við þá í starfi. Nefndin tilnefnir fulltrúa, í samstarfi við Landsliðsnefnd, sem fylgir ungmennum á HM, NM og önnur stórmót. Nefndin sér einnig um val þátttakenda á FEIF Youth Cup og Youth Camp.

3. grein

Hlutverki sínu hyggst nefndin ná m.a. með því að stuðla að því að haldnir séu fræðslufundir eða ráðstefnur fyrir æskulýðsfulltrúa hestamannafélaganna með reglulegu millibili. Við undirbúning slíkra funda skulu lagðar fram kostnaðaráætlanir til samþykkis til stjórnar LH. Einnig mun nefndin sjá um að koma á framfæri hugmyndum um verkefni og fræðsluerindi varðandi æskulýðsmál, og vera æskulýðsnefndum félaganna innan handar í starfi sínu.

4. grein

Nefndinni er falið að annast samskipti við Æskulýðsnefnd FEIF og fylgjast með starfi FEIF á sviði æskulýðsmála. Formaður eða fulltrúi nefndarinnar sækir ráðstefnu FEIF sem haldin er árlega.

5. grein

Nefndin skal annast undirbúning og val á þátttakendum hér á landi sem sækja um FYCup og FYCamp. Auglýsa skal eftir umsóknum á netmiðlum, ásamt því að senda æskulýðsnefndum félaganna auglýsingar um mótin. Nefndin útbýr reglur vegna vals á þátttakendum og sér um að kynna ferða- og keppnisreglur áður en lagt er af stað á Camp/Cup. Nefndin sér um að skriflegir samningar séu gerðir við þátttakendur. LH greiðir kostnað vegna fararstjóra.

6. grein

Nefndarmenn velja ritara nefndarinnar. Fundargerðir skulu ritaðar á hverjum fundi og skulu þær sendar á skrifstofu LH eins fljótt og auðið er að loknum fundum.

7. grein

Æskulýðsnefnd skili ársskýrslu til skrifstofu LH tveim vikum fyrir LH þing og formannafund.