Fréttir

Mælingar á reiðgötum

21.05.2025
Undanfarnar 6 vikur hefur LH mælt umferð hestamanna á einni af fjölmörgum reiðleiðum á félgsssvæði Fáks í Víðidal. Um er að ræða tilraunaverkefni sem vonandi getur nýst okkur hestamönnum til þess að átta okkur enn betur á umfangi hestamennskunnar. Mælirinn sem er notaður er tiltölulega einfaldur og var staðsettur á ljósastaur við reiðgötu. Hann var í þeirri hæð að hann mælir einungs knapa sem fer framhjá á hesti. Samskonar mælar eru notaðir víða til að mæla umferð gangandi og hjólandi vegfarenda.

Hugum að hestunum í sólinni

19.05.2025
Nú er heldur betur búið að vera blíða og stefnir í áframhaldandi sól og hlýindi. Gróður er snemma á ferðinni og margir hestar komnir út á sumarbeit. Að gefnu tilefni langar okkur að minna hesteigendur á að fylgjast vel með því að hestarnir hafi gott aðgengi að vatni þegar svona heitt er í veðri og komist í skugga vilji þeir það. Þá er gott að passa að saltsteinar séu til staðar til að bæta upp upp salt- og steinefnatapið sem fylgir svita. Hestar geta líka brunnið í sterkri sól og því er gott að smyrja ljósari svæði með hestvænni sólarvörn. Í reiðtúrum er gott að hafa í huga að hitastig er hærra en gengur og gerist og þjálfunin taki mið af því og passa vel upp á aðgengi að vatni bæði fyrir, á eftir og jafnvel á meðan á ferð stendur. Ef hestur sínir merki ofhitunar (hraður andardráttur, slappleiki, hár líkamshiti, svitaþorn og/eða óróleiki komdu honum þá umsvifalaust í skugga, kældu hann með vatni og hafðu samband við dýralækni. Með von um að allir njóti sín sem best í blíðunni!

Þórdís Anna Gylfadóttir kjörin í framkvæmdastjórn ÍSÍ

17.05.2025
Þórdís Anna Gylfadóttir úr Hestamannafélaginu Spretti var kosin í framkvæmdastjórn ÍSÍ á Íþróttaþingi 2025. Hún hlaut frábæra kosningu og hlaut næstflest greidd atkvæði af þeim níu frambjóðendum sem voru í kjöri. 
Á myndinni eru: Jónína Sif, Hinrik Þór, Linda Björk, Gundula, Berglind og Ólafur

Forseti FEIF heimsótti LH

15.05.2025
Gundula Sharman forseti FEIF heimsótti í dag skrifstofu LH. Gundula er um þessar mundir stödd á Íslandi, þar sem hún hefur átt fundi með samstarfs aðilum FEIF og öðrum hagsmuna aðilum sem tengjast íslenska hestinum.  Þá sat hún einnig fund með aðstoðarmönnum ráðherra og fjallaði þar um stöðu og framtíðarsýn Íslenska hestsins.  Gundula tók við embætti forseta FEIF fyrr á árinu og er þetta í fyrsta sinn sem hún heimsækir Íslands eftir að hún tók við því hlutverki. Heimsókn hennar á skrifstofu LH var fyrst og fremst til að efla tengsl og ýta undir áframhaldandi gott samstarf og samtal.

Miðbæjarreið aflýst

15.05.2025
Því miður tilkynnist það hér með að Miðbæjarreið Landssambands hestamannafélaga mun að óbreyttu ekki fara fram í ár. Ástæðan er viðburðargjald sem Reykjavíkurborg hyggist innheimta fyrir viðburðinn. Miðbæjarreiðin er að engu leyti tekjuaflandi fyrir LH og er því kostnaðurinn við viðburðinn orðinn slíkur að við sjáum okkur ekki fært að standa undir honum.

Nýjar leiðbeinandi reglur fyrir aðbúnað hryssna á sæðingastöðvum

14.05.2025
Samstarfshópur á vegum Matvælastofnunar, Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins, Lands og skóga, Landssambands hestamannafélaga og Deildar hrossabænda hjá Bændasamtökum Íslands hefur gefið út nýjar leiðbeinandi reglur fyrir aðbúnað hryssna á sæðingastöðvum. Leiðbeiningarnar sem lagðar eru til byggja á reynslu undangenginna ára, sem bæði þeir sem veita þessa þjónustu og nota hana, geta haft til hliðsjónar.

Frábær ferð U21 að Hólum

14.05.2025
U21 landsliðishópurinn átti frábæra ferð að Hólum síðastliðinn föstudag. Víkingur Þór Gunnarsson deildarstjóri Hestafræðideildar tók á móti hópnum og fór með þeim yfir sögu skólans og námið sem er í boði. Síðan var gengið um svæðið og sú frábæra aðstaða sem Hólar bjóða upp á skoðuð bæði reiðhallir og hesthús. Þá fengu þau að sjá nýja og glæsilega járningaaðstöðu, sem býður upp á tækifæri til að mennta nemendur enn frekar á því sviði.

Ágúst Örn vann hnakkinn!

05.05.2025
Aðalvinningur í happdrætti Allra Sterkustu Topreiter 961 hnakkur - frá Líflandi og Topreiter var dreginn á miða nr 1494. Vinningshafinn er Ágúst Örn Sigurðsson og kom hann í dag að sækja vinninginn.  Innilega til hamingju!

Upplýsingar fyrir keppendur 16-21 vegna U21

05.05.2025
Skilaboð frá Heklu Katharínu Kristinsdóttir landsliðsþjálfara til knapa sem stefna á HM.