Mælingar á reiðgötum

21.05.2025

Undanfarnar 6 vikur hefur LH mælt umferð hestamanna á einni af fjölmörgum reiðleiðum á félgsssvæði Fáks í Víðidal. Um er að ræða tilraunaverkefni sem vonandi getur nýst okkur hestamönnum til þess að átta okkur enn betur á umfangi hestamennskunnar.

Mælirinn sem er notaður er tiltölulega einfaldur og var staðsettur á ljósastaur við reiðgötu. Hann var í þeirri hæð að hann mælir einungs knapa sem fer framhjá á hesti. Samskonar mælar eru notaðir víða til að mæla umferð gangandi og hjólandi vegfarenda.

Á 45 dögum var 7003 sinnum riðið fram hjá þessum tiltekna staur, eða að meðaltali 146 sinnum á dag. Í Fák eru fjölmargar leiðir og því má ætla að þetta sé einungis tölfræði sem nær yfir brot af þeirri daglegu umferð sem er á reiðleiðum á Fákssvæðinu.

Mælirinn var staðsettur á staur, rétt við gömlu göngubrúnna á hinum svokallaða Tryppahring.

Næst fer mælirinn upp í Hörð og verður þar í nokkrar vikur. Við vonumst til þess að fleiri svona mælar geti farið í notkun og hvetjum þau hestamannafélög sem hafa áhuga á að skoða það nánar að hafa samband við Jónínu Sif á skrifstofu LH.

 

Hér á myndinni þar sem appelsínuguli punkturinn er má sjá hvar mælirinn var staðsettur.