Gangtegundir

Á aðalfundi FEIF í Malmö í Svíþjóð 2012 buðu fulltrúar LH, þeir Sigurður Ævarsson og Sigurbjörn Bárðarson að LH sæi um að skilgreina gangtegundir íslenska hestsins í tengslum við Task force verkefnið sem FEIF vinnur að. Verkefnið felur í sér að FEIF endurskoði allar reglur og markmið sitt í þágu hestsins.

Í dag stunda um ellefuþúsund manns hestaíþróttina samkvæmt opinberum tölum. Nauðsynlegt er því að þekkja vel eðli og skilgreiningu þeirra gangtegunda sem íslenski hesturinn býr yfir. Sú skilgreining er forsenda þess að hægt sé að skilja hvernig best sé að byggja hestinn upp til að hann öðlist sem mesta færni á hverri gangtegund og að sú vinna fari fram á forsendum hestsins.

Þá er þessi vinna einnig forsenda þess að hægt sé að samræma mat við dómsstörf á öllum gangtegundum og skiptir því miklu máli í menntun og þjálfun allra dómara sem koma að íslenska hestinum.

Með þetta að leiðarljósi fékk LH til liðs við sig þá Sigurð Ævarsson og Sigurbjörn Bárðarson, Þorvald Kristjánsson
og Gunnar Reynisson kennara við LBHÍ á Hvanneyri og var Þorvaldur formaður nefndarinnar. Bæklinginn prýða faglegar teikningar byggðar á grundvelli rannsókna á myndskeiðum af hreyfiferlum gangtegundanna. Þessar skilgreiningar gangtegundanna hafa verið lesnar yfir af fagmönnum innan stéttarinnar og fengnar til umsagnar og athugasemda til að tryggja sem besta faglega nálgun á verkefnið og að um það ríki sátt.

Með þessu metnaðarfulla verkefni vill LH leggja sitt af mörkum, þar sem Ísland er upprunaland íslenska hestsins, til að tryggja forystu okkar þar sem fjallað er um íslenska hestinn og það sem að honum snýr. Forsenda þess að það takist er að taka þátt í því góða starfi sem fram fer innan FEIF og helst að leiða það.

Vil ég fyrir hönd LH þakka þessum einstaklingum þeirra góða og merkilega framlag sem hér gefur að líta. Þessi skilgreining
á gangtegundum íslenska hestsins mun nýtast vel í allri umfjöllun um þjálfun, uppbyggingu, reiðmennsku, menntun, dóma og fleira er lítur að notkun hestsins.

Haraldur Þórarinsson, formaður LH

Gangtegundir íslenska hestsins

The gaits of the Icelandic horse