Tilkynningar um atvik á mótum

Góð samskipti, virðing og kurteisi knapa, dómara, ritara og annars starfsfólks á mótssvæði er nokkuð sem öllum er umhugað um. Stjórn LH og dómaranefnd LH hafa ákveðið að reyna að ná utan um þessi samskipti með það fyrir augum að laga það sem betur má fara og samræma vinnu- og verklag.

Á vef LH hefur verið komið fyrir tilkynningahnappi (atvikaskráning) fyrir skráningu á atvikum sem upp koma á mótum. Þegar ýtt er á hnappinn opnast eyðublað þar sem hægt er að skrá hverskonar atvik sem upp koma er varða ósæmilega hegðun eða samskiptaerfiðleika á mótsstað.

Þetta geta verið atvik þar sem starfsfólki misbýður hegðun annars starfsfólks, atvik þar sem starfsfólki misbýður hegðun keppenda eða aðstandenda þeirra, eða atvik þar sem keppendur telja sig beitta órétti, svo dæmi séu tekin.

Skráning atvika er forsenda þess að hægt sé að bregðast við og grípa inn í þegar sömu aðilar verða ítrekað uppvísir að ósæmilegri hegðun. Dómaranefnd LH mun safna þessum atvikum saman, taka til umfjöllunar og kalla þá aðila á fund sem þurfa þykir og finna málum farveg til úrlausnar.

Fyllsta trúnaðar er gætt um öll mál og einungis dómaranefndin og framkvæmdastjóri LH hafa aðgang að atvikaskráningunni. Í dómaranefnd LH sitja formaður LH, formaður HÍDÍ og formaður GDLH.

Tilkynningahnappurinn er staðsettur efst hægra megin á vefsíðu LH, og er tengill á eyðublaðið hér: https://www.lhhestar.is/is/atvikaskraning