Reglur um gæðingafimi LH uppfærðar

20. janúar 2022
Fréttir

Starfshópur um gæðingafimi LH hefur á síðustu mánuðum unnið að uppfærslu á reglum um gæðingafimi LH.

Nokkur reynsla er komin á reglurnar en keppt var eftir þeim á nokkrum mótum á síðasta ári. Tekið hefur verið tillit til athugasemda sem starfshópnum hafa borist og ýmislegt í reglunum hefur verið betrumbætt.

Meðal annars hafa breytingar verið gerðar á vægi æfinga. Á 2. stigi er komið inn mismunandi vægi á æfingum en vægi æfinga er skilgreint sérstaklega í hverju stigi og á að endurspegla erfiðleikastig æfinga.

Æfingum hefur verið fækkað á 2. og 3. stigi. Einnig eru nú þrjár æfingar leyfðar upp við vegg á 2. og 3 stigi.

Hámarkstími úti hefur verið styttur niður í 5,5 mín.

Reglurnar eru enn í þróun og verða teknar til endurskoðunar í lok keppnistímabilsins.

Uppfærðar reglur eru nú aðgengilegar á vef LH undir flipanum "lög og reglur".