Hvað má eiginlega?

27. apríl 2023
Fréttir
Einbrotin hringamél

Upplýsingar til keppenda

Nú um helgina er fyrsta löglega útimótið hjá hestamannafélögum landsins að hefjast með íþróttamóti Mána á Suðurnesjunum. Mánamenn ríða á vaðið og svo rekur hvert mótið annað fram á haust hjá okkur. Það er því ekki úr vegi að hnikkja á þeim reglum sem í gildi eru varðandi búnað og fleira sem hægt er að taka með sér inn í tímabilið.

Eins og flestir keppendur vita tóku gildi nýjar reglur um leyfðan búnað á þessu tímabili og hér að neðan eru hlekkir sem eru virkilega gagnlegir að skoða í því samhengi:

https://www.lhhestar.is/is/frettir/leyfdur-beislisbunadur-2023 (frétt um leyfðan búnað frá 3 apríl 2023).

https://www.lhhestar.is/static/files/Log_LH/Logogreglur2023/leyfdur-bunadur-i-keppni.pdf (listi yfir leyfðan búnað þýddur á íslensku).

https://www.feif.org/feif-equipment/ (listi yfir leyfðan búnað á heimasíðu FEIF)

https://www.feiffengur.com/documents/FEIF%20Equipment%20Manual_2023.pdf (handbók um búnað með skýringum á helstu hugtökum og fleira).

https://www.feiffengur.com/documents/FAQ_2023.pdf (Skjal frá FEIF með algengum spurningum og svörum þar sem frekari skýringar er að finna á ýmsu þessu tengdu).

Keppnisnefnd LH hélt á dögunum fund með dómurum í íþrótta- og gæðingakeppni þar sem ítarlega var farið yfir gildandi lög og reglur og listanum yfir leyfðan búnað gerð góð skil.

Á fundinum komu fram einlæg tilmæli dómara til mótshaldara og knapa um að veita knöpum möguleika á því að taka með sér búnað á knapafund í upphafi móts og fá úr því skorið hjá yfirdómara hvort búnaðurinn sé sannarlega löglegur ef einhverjar efasemdir eru til staðar.

LH hvetur því keppendur til þess að kynna sér þessar reglur ítarlega og ef vafaatriði vakna er um að gera að fá umsögn yfirdómara mótsins á knapafundi til þess að forðast óþarfa ógildingar á sýningum með tilheyrandi leiðindum.

Skjalið yfir leyfðan búnað

Listinn sem gildir yfir leyfðan búnað er býsna skýr. Þegar upp koma vafamál gildir skjalið á heimasíðu FEIF, og er yfir öllum þýddum skjölum um efnið og er það sem dómarar og starfsmenn móta styðjast við í sínum störfum.

Þegar verið er að velta fyrir sér leyfðum búnaði er góð meginregla að hafa alltaf í huga að kynna sér og þekkja það sem sannarlega er leyft, þ.e. þau atriði sem eru undir grænum lit í skjalinu góða. Einungis þegar upp koma vafaatriði er farið í "rauða listann" til þess að skera úr um þau.

Handbókina og listann yfir algengar spurningar og svör er hægt að hafa til hliðsjónar og útskýringa á hugtökum.

Hringamél

Hringamél mega vera óbrotin (einjárnungur), einbrotin eða tvíbrotin.

Hringamél með fleiri bitum eru ekki leyfð, einungis óbrotin, ein- eða tvíbrotin mél.

Hringamél mega vera með lausum hefðbundnum hringjum, D-hringjum og sporöskjulaga hringju, með eða án tunguboga. 

Svokölluð Þ-mél eru einnig leyfð en þá einungis með enskum múl.

Þegar hringamél eru annarsvegar eru allir festimöguleikar á aðskildum hringjum fyrir höfuðleður eða tauma bannaðir. Mél með stangakeðju eða með festingum á milli méla og múls og hringamél með vogarafli hverskonar eru einnig bönnuð.

Tamningabeisli sem eru nokkuð algeng í notkun orðið (Micklem) eru leyfð en bannað er að nota klemmur sem tengja mélin við múl.

Íslenskar stangir

Stangir eru leyfðar í öllum flokkum og greinum með enskum múl án skáreimar og mótuðum múl án skáreimar.

Stangamél mega vera ein- eða tvíbrotin og tungubogi má vera að hámarki 0,5 cm mælt frá lægsta hluta bogans.

Allir tengipunktar stanganna skulu vera lausir, og allir læsimöguleikar og fastar tengingar eru bannaðar.

Hringurinn sem tengist við höfuðleður skal vera hringlaga en ekki sporöskjulaga (egglaga).

Óbrotin mél (einjárnungar) og mél sem hafa læsimöguleika (lock up ) og mynda þar með einjárnung í vissri stöðu eru bönnuð.

Pelham stangir

Pelham stangir eru leyfðar í keppni en ekki í kynbótasýningum með enskum múl án skáreimar eða mótuðum múl á skáreimar.

Pelham beisli skal nota með tvo tauma og óheimilt er að ríða einungis með einn taum.

Pelham má vera óbrotið, ein- og tvíbrotið og tungubogi má vera að hámarki 0,5 cm mælt frá lægsta hluta bogans.

Mélalaus búnaður

Mélalaus beisli með föstum tengingum fyrir höfuðleður, keðjuól og tauma eru leyfð og skal efni búnaðarins vera mjúkt, án málma eða viðlíka innleggi.

Mélalaus beisli með stangaáhrifum og keðju/ólum er bannað.

Aðeins búnaður sem talinn er upp á leyfðum lista er leyfður til notkunar í keppni og því er upplagt að hafa “græna listann” í huga við val á búnaði inn í keppnistímabilið.

 

Gangi ykkur vel og gleðilegt keppnisár

Mótasvið LH