Afrekshópur LH

24. september 2018
Fréttir

Afrekshópur LH hefur verið starfræktur í þrjú ár og hefur verið að þróast og styrkjast. Liðstjóri hópsins er Arnar Bjarki Sigurðarson en hópurinn samastendur af 16 ungmennum á aldrinum 16-21 árs. Haldin eru 4-5 helgarnámskeið yfir árið. Eitt af markmiðunum í ár hefur verið að fá mismunandi nálgun á þjálfun hestanna og bjóða upp á fjölbreyttan hóp kennara.

Fyrsta helgarnámskeiðið fór fram á Sunnuhvoli, því miður var stormur þá helgina sem setti aðeins strik í reikninginn en helgin tókst þó vel. Yfirskrift helgarinnar var markmiðssetning, þar sem Olil Amble og Arnar Bjarki fóru yfir hversu mikilvægt það væri að vera með skýra mynd hvert maður stefndi strax frá byrjun til að ná sínum markmiðum.

Önnur helgin fór einnig fram á Sunnuhvoli en þar kenndi Aðalheiður Anna ásamt Arnari Bjarka. Þetta námskeið var í lok mars og innanhús keppnir í fullum gangi og undirbúningur fyrir keppni úti á velli. Yfirskrift helgarinnar var áhugi sem er nú ekki af skornum skemmti í þessum hóp. Námskeiðið gekk vel þar sem farið var í atriði sem gætu gagnast í keppni eða sem undirbúningur fram að keppni.

Þriðja helgin fór fram í júní á hringvelli í Spretti, en Sprettarar voru svo almennilegir að lána völl undir námskeiðið. Þar kenndi Viðar Ingólfsson ásamt Arnari Bjarka. Viðar er bæði reyndur keppnisknapi og er einnig íþróttadómari og snérist helgin að mestu um að stilla upp prógrammi fyrir landsmót eða Íslandsmót sem voru þá framundan.

Á landsmóti tóku svo sex knapar úr hópnum þátt í hópreiðinni á setningarathöfn landsmótsins, í íslenska landsliðsbúningnum. Hópurinn lagði einnig sitt af mörkum í fjáröflun fyrir íslenska landsliðið á töltkeppninni “Þeir allra sterkustu” þar sem þau seldu happdrættismiða og tóku þau sig vel út í íslenska landsliðsbúningnum.

Þátttakendur í afrekshópnum stóðu sig almennt vel í keppnum í sumar, mörg þeirra sigruðu sína flokka og landsmótssigrar og Íslandsmeistaratitlar voru þar á meðal. Einnig voru flest þeirra ungmenna sem tóku þátt á NM í Svíþjóð meðlimir í afrekshópnum.

Eitt af verkefnum hópsins er þátttaka í samstarfsverkefni LH við HR þar sem meistaranemi gerir líkamlegar mælingar á knöpum. Þau voru mæld í tengslum við fyrsta helgarnámskeiðið, svo voru þau aftur í júní og þriðja mælingin verður svo á næstu námskeiðshelgi sem er á Hólum í Hjaltadal. Þar verða þau ekki með eigin hesta heldur fá að kynnast nemendahestum þar og einbeita sér meira að sjálfum sér sem knapa undir leiðsögn reiðkennara Hólaskóla.