Komdu á Skógarhóla

Hestamönnum sem eru í hestamannfélögum býðst gisting á Skógarhólum á sérstökum kjörum. Staðurinn er tilvalinn fyrir hópa og hverskonar hópefli, til dæmis æskulýðshópa hestamannfélaganna. Þá er einnig tilvalið fyrir hópa að koma með hross, gista eina nótt og ríða út báða dagana í þjóðgarðinum. 

Húsið tekur 32 í gistingu og matsalur rúmar allt að 50 manns. Fimm nætuhólf eru fyrir hesta á Skógarhólum auk hólfa í Svartagili.

Vinir Skógarhóla hafa lyft grettistaki á vormánuðum á Skógarhólum, girðingar voru lagfærðar, flotað í gólf á salernum, sett upp eldhúsinnrétting með bakarofni og uppþvottavél, nýjir stólar í matsal og hluti af dýnum endurnýjaðar. Þakið verður svo einangrað og klætt fyrstu helgina í júlí og sömu helgi stendur til að plokka rusl í nágrenni Skógarhóla.

Það hefur verið gestkvæmt á Skógarhólum frá opnun í vor. Ánægðir hestamenn hafa áð yfir nótt í sleppitúr eða komið með hross á kerrum og riðið út á frábærum reiðleiðum í þjóðgarðinum. Stjórn LH hélt sumarfund stjórnar á Skógarhólum um miðjan júní og stjórnarmenn riðu um þjóðgarðinn í bliðskaparveðri og áttu glaðan dag.

Tekið er á móti bókunum á skogarholar@lhhestar.is

  • Stefán Logi Haraldsson glaðbeittur í áningu í Hrauntúni
  • Lárus Ástmar Hannesson formaður reffilegur með þrjá til reiðar
  • Knapar og hestar ánægðir með reiðveginn og umhverfið ekki síðra
  • Áning í Skógarkoti
  • Lilja Björk Reynisdóttir stóð vaktina við grillið
  • Hluti stjórnar og starfsfólks og aðrir meðreiðarsveinar eftir skemmtilega reið frá Stíflisdal að Skógarhólum
  • Teymt upp úr Almannagjánni