Vilt þú ná þér í Þjálfarastig LH?

03. febrúar 2023
Fréttir

Hvað er Þjálfarastig LH?

Þjálfarastig LH eru nám þar sem hægt er að öðlast færni til þjálfunar og kennslu í hestaíþróttum. Til að ná Þjálfarastigum LH þarf að ljúka knapamerkjaprófum og þjálfaramenntun ÍSÍ í fjarnámi.

Þjálfaramenntun ÍSÍ er í boði þrisvar á ári, þ.e. sumar-, haust, - og vorfjarnám. Námið tekur átta vikur á 1. stigi en fimm vikur á 2. og 3. stigi. Námið er almennur hluti menntakerfisins og gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar. LH auglýsir skráningu í þjálfaramenntun ÍSÍ hverju sinni áður en námskeið hefst með góðum fyrirvara. Næsta námskeið hefst 6. febrúar og má sjá hér.

Knapamerki: Hestamannafélögin auglýsa knapamerkjanámskeið hverju sinni og hægt er að fá upplýsingar um þau hjá þínu hestamannafélagi. Hægt er að sjá fleiri upplýsingar um knapamerkin hér http://knapamerki.is/

Þjálfarastig LH

Til að ná sér í Þjálfarastig 1 þarf að ljúka knapamerkjaprófum 1-3 og hafa umgengist hesta í amk 2 ár áður en nám hefst. Taka þarf 1. stig í þjálfaramenntun ÍSÍ. Aldurstakmark er 16 ára.

Til að ná sér í Þjálfarastig 2 þarf að ljúka knapamerki 4 og hafa amk 3ja ára reynslu af útreiðum og hirðingum hesta. Taka þarf 2. stig í þjálfaramenntun ÍSÍ. Auk þess þarf að taka a.m.k 8 tíma skyndihjálparnámskeið. Aldurstakmarkið er 18 ára.

Til að ná sér í Þjálfarastig 3 þarf að ljúka knapamerki 5 og hafa a.m.k fjögurra ára reynslu af þjálfun mismunandi hestgerða. Taka þarf 3. stig í þjálfaramenntun ÍSÍ. Auk þess þarf að taka a.m.k 20 tíma á  skyndihjálparnámskeiði. Aldurstakmarkið er 20 ára.

Nemandi sem lýkur námi í Þjálfarastigi 3 öðlast færni við að aðstoða/kenna grunnatriði reiðmennskunnar og aðstoða við þjálfun reiðhesta.  Að ljúka Þjálfarastigi 3 er sambærilegt við Level 1 hjá FEIF -Alþjóðasamtökum íslenska hestsins. Nemendur sem útsrifast með BSc í reiðmennsku og reiðkennslu frá Hólum öðlast þessi réttindi eftir fyrsta árið á Hólum. 

Gaman er að segja frá því að Anna Björk Ólafsdóttir í Sörla er fyrst til að ljúka þessu námi og óskum við henni til hamingju með það!