Vilja samræma tímatökubúnað

Keppnisnefnd og stjórn LH eru þessa dagana að móta tillögur að því hvernig samræma má rafrænar tímatökur á kappreiðum í FEIF löndunum. Jóhann Valdimarsson hefur bent á að tímatökubúnaður sé ekki staðlaður. Talsverður munur geti því orðið á tímum í hlaupum eftir því hvaða búnaður sé til staðar. Sá munur geti numið mörgum sekúndubrotum. Sjá frétt um málið HÉR. Keppnisnefnd og stjórn LH eru þessa dagana að móta tillögur að því hvernig samræma má rafrænar tímatökur á kappreiðum í FEIF löndunum. Jóhann Valdimarsson hefur bent á að tímatökubúnaður sé ekki staðlaður. Talsverður munur geti því orðið á tímum í hlaupum eftir því hvaða búnaður sé til staðar. Sá munur geti numið mörgum sekúndubrotum. Sjá frétt um málið HÉR.

Á fundi sem haldinn var í gær, 16. apríl, var ákveðið að skrifa bréf til stjórnar FEIF og óska eftir samstarfi við FEIF um að koma á samræmdu regluverki í öllum FEIF löndunum. Móta þurfi reglugerð um rafrænar tímatökur og skilgreina nákvæmlega upphafs- og endapunkt tímatöku. Ennfremur hvernig sannreyna eigi búnað og votta ef um met er að ræða. Keppnisnefnd, ásamt Jóhanni Valdimarssyni, var falið að skrifa tillögu að reglugerð um rafræna tímatöku. Verður sú tillaga síðan lögð fyrir stjórn LH til umfjöllunar.

Á fundinum voru fulltrúar frá LH og Skeiðfélaginu. Einnig sat fundin Arnór Sigurðsson, helsti sérfræðingur Frjálsíþróttasambands Íslands í tímatökumálum. Voru menn sammála um að það væri virðingarsleysi við keppendur að í notkun væru mismunandi gerðir tímatökubúnaðar, sem gæti gefið einum betri tíma og öðrum lakari. Arnór sagði að misræmi sem þetta myndi ekki lýðast á alþjóðlegum mótum í frjálsum íþróttum. Á slíkum mótum þurfi þar til bærir aðilar að votta búnaðinn sérstaklega svo hann fáist samþykktur.