Vel sóttur Formannafundur

12. nóvember 2009
Fréttir
Annaðhvert ár er haldin Formannafundur þar sem formenn allra hestamannafélaga í landinu koma saman ásamt formanna nefnda LH og formönnum dómarafélaga LH. Á fundinum kynnir Landssamband hestamannafélaga starfsemi sína, nefndir skila inn skýrslum sínum og reikningar eru kynntir. Annaðhvert ár er haldin Formannafundur þar sem formenn allra hestamannafélaga í landinu koma saman ásamt formanna nefnda LH og formönnum dómarafélaga LH. Á fundinum kynnir Landssamband hestamannafélaga starfsemi sína, nefndir skila inn skýrslum sínum og reikningar eru kynntir. Formannafundurinn var haldin 6.nóvember síðastliðinn og var vel sóttur en rúmlega 50 manns mættu. Á fundinum var farið yfir skýrslu stjórnar, skýrslur nefnda LH, Æskulýðsbikarinn var veittur, greint var frá undirbúningsvinnu Landsmóts og að lokum mynduðust góðar umræður.

 


     

Miklar og góðar umræður sköpuðust um rekstur reiðhalla hestamannafélaganna og hvernig væri best að reka þær því þær eru mjög stór kostnaðarliður í rekstri hestamannafélaganna. Þá benti Sigfús Helgason, stjórnarmaður í LH, á að hestamennskan væri íþrótt og að LH væri innan ÍSÍ. Hestamenn ættu að berjast fyrir því að reiðhallir væru viðurkenndar sem íþróttamannvirki sem sveitarfélögin eigi að reka. Þegar hestamannafélögin eru að reka reiðhallirnar sjálf þurfa þau að rukka leigu frá sínum félagsmönnum en aðrir íþróttamenn þurfa ekki að borga fyrir að iðka sínar íþróttir í öðrum íþróttamannvirkjum sem sveitarfélögin eiga. Sigfús lagði áherslu á að hestamenn væru fullgildir íþróttamenn.
Fulltrúi frá Capacent Gallup kynnti gildi félagsstarfs og benti á að félagsauðurinn sé í raun aðal auður félaganna en ekki efnislegi auðurinn. Hann lagði fram nokkrar umræðuspurningar fyrir salinn þar sem m.a. var spurt um hver væri tilgangur hestamannafélaganna og fyrir hvað ættu þau að standa?
Æskulýðsbikar LH 2009 var afhentur en bikarinn er mikil viðurkenning. Öflugt og frjótt æskulýðsstarf gefur möguleika á að hljóta Æskulýðsbikar LH sem veittur er árlega því félagi sem þykir skara fram úr í starfi og/eða sýnir mikla framför. Að þessu sinni þótti hestamannafélagið Dreyri á Akranesi skara framúr. Ása Hólmarsdóttir veitti bikarnum viðtöku. Hún sagði að nú væri mikið líf í félagsstarfi Dreyra og reynt hafi verið að hafa dagskránna sem fjölbreyttasta. Ása þakkaði kærlega fyrir viðurkenninguna og sagði hana hvetja þau áfram til frekari dáða.

 
Helga B. Helgadóttir formaður Æskulýðsnefndar greinir frá því hvaða hestamannafélag hlaut Æskulýðsbikar LH 2009.

Fleiri frétta er að vænta um Formannafundinn á næstunni.