Vel heppnuð stóðhestaveisla í Rangárhöll

Ás frá Ármóti, knapi Hafliði Halldórsson.
Ás frá Ármóti, knapi Hafliði Halldórsson.
Stóðhestaveisla Rangárhallarinnar var haldin síðastliðin laugardag. Óhætt er að segja að sunnlenskum hestamönnum hafi tekist ætlunarverk sitt; að endurvekja stemmningu gömlu góðu Gunnarsholtssýningarnar! Rangárhöllinn var stútfull af áhorfendum. Bílaflotinn á malbikaða bílastæðinu á Gaddstaðaflötum gaf helst til kynna að Landsmót væri hafið. Svo stór var hann. Stóðhestaveisla Rangárhallarinnar var haldin síðastliðin laugardag. Óhætt er að segja að sunnlenskum hestamönnum hafi tekist ætlunarverk sitt; að endurvekja stemmningu gömlu góðu Gunnarsholtssýningarnar! Rangárhöllinn var stútfull af áhorfendum. Bílaflotinn á malbikaða bílastæðinu á Gaddstaðaflötum gaf helst til kynna að Landsmót væri hafið. Svo stór var hann.
Fjölmargir stóðhestar komu fram á sýningunni, flestir án afkvæma. Nokkrir voru sýndir með afkvæmum, sem flest voru ung að árum, sum á fyrsta ári í tamningu. Það sem var sérstakt við sýningarnar var að knaparnir voru í all mörgum tilfellum „venjulegt hestafólk“. Gaf það sýningunum notalegan blæ og minnti á að flest reiðhross eru í notkun hjá hinum almenna hestamanni.

Nokkrir reyndir, frægir stóðhestar komu fram og hafa sumir þeirra sjaldan eða aldrei verið betri. Skal þar fyrstan nefna Glym frá Innri-Skeljabrekku, sem fór á kostum á öllum gangi, ef þannig má að orði komast. Knapi á honum var Þórður Þorgeirsson. Eldjárn frá Tjaldhólum var ekki síðri og kynnti enn og aftur sitt eftirláta og glaða sinni. Knapi Guðmundur Björvinsson.

Fimmgangararnir Lúðvík frá Feti, knapi Anton Níelsson, og Vár frá Vestra –Fíflholti, knapi Guðmundur Björgvinsson, hafa sennilega aldrei verið betri. Orðnir stálpaðir og stinnir gæðingar. Fursti frá Stóra-Hofi stendur alltaf fyrir sínu, reiðhestur af bestu gerð. Knapi Daníel Jónsson. Hinni stórstígi Þröstur frá Hvammi tók höllina í nokkrum skrefum og skipti þá engu hvaða gangtegund var valin. Knapi Vignir Siggeirsson.

Hnokki frá Fellskoti bætti einni fjöðrinni enn í hatt sinn. Fagur gæðingur, mjúkur og geðgóður. Knapi Hinrik Bragason. Hafliði Halldórsson mætti eins og herforingi með stóðhestinn Ás frá Ármóti. Báðir flottir. Sædynur frá Múla sýndi góða takta hjá Ólafi Ásgeirssyni. Bræðurnir Ómur og Óliver frá Kvistum eru hæfileikahestar, og sömu sögu er að segja um Mídas frá Kaldbak. Spennandi stóðhestar. Af yngri hestunum vakti þó hvað mesta hrifningu Ás frá Strandarhjáleigu, Þristssonur frá Feti. Einstaklega mjúkur og geðslegur töltari, litfagur, móbrúnskjóttur.

Tveir stóðhestar mættu með stóran hóp afkvæma. Það voru þeir Stæll frá Miðkoti og Vilmundur frá Feti. Stæll er fjórtán vetra og nokkur reynsla komin á afkvæmin. Undirstrikaði hópurinn að Stæll er reiðhestafaðir. Gefur gott tölt og geðslag; hross sem henta flestum. Afkvæmi Vilmundar voru öll á fimmta vetur og hópurinn óráðnari. Öll voru þau prýðilega geng. Öll afkvæmin í hópnum eru brún eða svört.

Sýningin var vel skipulögð og alls ekki langdregin, þótt hún tæki nærri þrjár klukkustundir. Tvö 20 mínútna hlé voru gerð á sýningunni og þá gátu gestir gætt sér á hlaðborði að hætti mömmu. Líkt og í Gunnarsholti forðum. Vel til fundið hjá Rangæingum. Þess skal getið að stefnt er að því að Stóðhestaveisla Rangárhallarinnar verði árlegur viðburður.