Vel heppnaður stefnumótarfundur LH

29.04.2025

Í gær mánudaginn 28. apríl fór fram stefnumótunarfundur Landssambands hestamannafélaga. Stjórn boðaði fundinn og voru fulltrúar hestamannafélaganna hvattir til að mæta á staðinn eða vera með á Teams.

Markmið fundarins var að skapa sameiginlega framtíðarsýn fyrir samband allra hestamanna og var því ákaflega gleðilegt að sjá hversu margir tóku frá tíma til að vera með okkur í þessari vinnu en um 30 manns mættu á staðinn og 50 tóku þátt í fjarfundi.

Petra Björk Mogensen stýrði fundinum ásamt Lindu Björk Gunnlaugsdóttur. Þær fengu svo dygga aðstoð frá þeim Jónínu Björk Vilhjálmsdóttur og Anna Kristín Kristinsdóttir sem tóku saman niðurstöður fundarins.

Fundargestir tóku virkan þátt í vinnunni og verður það verkefni næstu daga að fara yfir niðurstöðurnar og verða þær birtar félagsmönnum. En ljóst að félagsmenn kalla eftir áframhaldandi góðu starfi með grunngildi LH í forgrunni íþrótt, menning, lífsstíll ásamt því að horfa inn í framtíðina og setja velferðarmálin í enn meiri forgrunn.

Hestamennskan sem bæði almenningsíþrótt og keppnisíþrótt var mikið rædd og hvernig má standa vörð um og efla hvoru tveggja. Þá var rætt um menningarlegt mikilvægi hestamennskunnar og þeirra sérstöðu sem íþróttin hefur í þeim skilningi hérlendis og hvernig við þurfum að standa vörð um Íslenska hestinn á alþjóðavísu.

Við hlökkum til að deila með ykkur frekari niðurstöðum úr þessari vinnu.