Vegleg gjöf í Hóla frá Magnúsi Sigurðssyni

05. febrúar 2010
Fréttir
Talið f.v. Víkingur Gunnarsson, Skúli Skúlason, Rósa Bjarnadóttir, Magnús Sigurðsson og Arna Bjarnadóttir.
Magnús Sigurðsson læknir og hestamaður færði Háskólanum á Hólum og Sögusetri íslenska hestsins veglega gjöf við athöfn í dag. Magnús sem komin er yfir áttrætt hefur í gegnum tíðina safnað orðum og orðatiltækjum sem tengjast hestum og hestamennsku. Magnús Sigurðsson læknir og hestamaður færði Háskólanum á Hólum og Sögusetri íslenska hestsins veglega gjöf við athöfn í dag. Magnús sem komin er yfir áttrætt hefur í gegnum tíðina safnað orðum og orðatiltækjum sem tengjast hestum og hestamennsku. Við starfslok hellti Magnús sér svo að fullu í verkefnið og vann ötullega og markvisst að gerð orðasafns á þessu sviði. Hann leitaði víða fanga m.a. í útkomnum orðabókum, fornritum, íslenskum bókmenntum, fagbókum um hestinn og í erlendum ritum. Tilgangurinn með orðabókinni var að safna sem flestu um hesta og notkun þeirra allt frá því fyrir Íslandsbyggð. Magnús hafði og í huga að gömul orð sem ný gætu komið til góða í framtíðinni þegar fjölbreytni verður meiri í hestaíþróttum og annarri hestamennsku. Magnús kallar orðasafn sitt Orðfák.

Auk þess að afhenda Háskólanum á Hólum og Sögusetri íslenska hestsins Orðfák til varðveislu og vinnslu færði hann skólanum og setrinu stórt og mikið safn gagna sem hér greinir:

- Íslenskar bækur (fræðirit, bókmenntir á íslensku)
- Erlendar bækur (fræðirit, bókmenntir á erlendum málum)
- Tímarit (Hesturinn okkar, Eiðfaxi, Pony Post, á íslensku, þýsku og fleiri málum)
- Blöð (íslensk og erlend)
- Ljósrit (bækur, tímarit - á íslensku og erlendum málum)
- Hestastyttur og fleira þess háttar (úr gibsi, gleri, málmi, plasti, leir og tré)
- Myndir (málaðar, teiknaðar, ljósritaðar, prentaðar og saumaðar)
- Blaðaúrklippur og fleira

Það skal undirstrikað að safnið er mikið og merkt og er það mikill fengur fyrir allt fræðastarf sem tengist hestum og hestamennsku á Hólum. Gjöfin eflir bókasafnið umtalsvert. Sögusetur íslenska hestsins og Háskólinn á Hólum eru þakklát Magnúsi fyrir mikilvægt starf í þágu íslenskrar tungu og menningar, höfðinglega gjöf og þann hug sem hann ber til Hóla í Hjaltadal og þess starfs sem þar er unnið.