Úthlutun úr Afrekssjóði ÍSÍ 2021

28. desember 2020
Fréttir

Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hefur samþykkt tillögur stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ að úthlutun fyrir árið 2021, en styrkveitingar ÍSÍ til sambandsaðila nema rúmlega 515 milljónum króna og er um að ræða hæstu úthlutun Afrekssjóðs ÍSÍ frá upphafi.

Styrkur Afrekssjóðs til Landssambands hestamannafélaga fyrir árið 2021 er kr. 12.400.000 og er það hækkun um fimm milljónir á tveimur árum. Í lok árs 2019 var LH fært upp um flokk hjá Afrekssjóðnum, úr flokki C-sambanda í flokk B-sambanda og er þetta þriðji hæsti styrkur sem B-samband hlýtur þetta árið. Er þetta til marks um það frábæra starf sem unnið hefur verið í afreksmálum LH síðustu ár þar sem m.a. umgjörð um landsliðsmálin hefur verið efld til muna og hæfileikamótun fyrir unglinga komið á fót.

Framundan er stórt ár í afreksstarfi LH með heimsmeistaramóti í ágúst þar sem Ísland ætlar sér stóra hluti.