Uppskeruhátíð Léttis

16. nóvember 2011
Fréttir
Snjólaug og Guðlaugur taka við verðlaunum Baldvins Ara.
Uppskeruhátíð Léttis var haldin síðastliðinn laugardag, um 80 manns mættu á hátíðina og var kátt á hjalla. Uppskeruhátíð Léttis var haldin síðastliðinn laugardag, um 80 manns mættu á hátíðina og var kátt á hjalla.
Birgir Arason var veislustjóri, Gréta og Elvar Jónssteinsbörn sungu fyrir okkur nokkur bráðskemmtileg lög og veittar voru viðurkenningar.

Guðmundur Hjálmarsson fékk hesthúsabikar Léttis árið 2011 en hesthús Guðmundar að Granaskjóli 6 er mjög glæsilegt, jafnt að utan sem innan.

4 silfurmerki voru afhent en þau voru afhent Kjartani Helgasyni, Áslaugu Kristjánsdóttur, Sigurði Hjaltasyni og Sigurði Jónssyni.

6 knapar voru tilnefndir til efnilegasta knapa ársins en þau voru: Árni Gísli Magnússon, Björgvin Helgason, Skarphéðinn Páll Ragnarsson, Valgeir Hafdal, Guðrún Dögg Sveinbjörnsdóttir og Stefanía Árdís Árnadóttir.

Í ár var það Björgvin Helgason sem varð fyrir valinu. Björgvin er prúður og settlegur knapi sem hefur tekið miklum framförum á undanförnum árum og var ofarlega í flestum þeim keppnum sem hann tók þátt í á árinu.

Til knapa ársins voru tilnefndir Guðmundur Karl Tryggvason, Helga Árnadóttir, Jón Herkovic, Baldvin Ari Guðlaugsson, Birgir Árnason, Sveinn Ingi Kjartansson, Viðar Bragason, Ásdís Helga Sigursteinsdóttir, Þorvar Þorsteinsson, Þorbjörn Hreinn Matthíasson. Í ár er það Baldvin Ari Guðlaugsson sem hlýtur titilinn knapi ársins. Baldvin er öllum kunnugur og átti góðan árangur í keppnum í ár. Einnig var Efri Rauðalækur valinn ræktunarbú keppnishesta á uppskeruhátíð L.H. um þar síðustu helgi. Baldvin var staddur í Svíþjóð þegar viðurkenningin var veitt og voru það foreldrar hans  Guðlaugur og Snjólaug sem tóku við verðlaununum fyrir hans hönd.

Við óskum Baldvin og Björgvin innilega til hamingju með titla sína.

Hér eru umsagnir um silfurmerkishafa Léttis 2011:
Kjartan Helgason kom inn í hestamennskuna fyrir ekki margt löngu, en þar var enn einn happafengurinn fyrir félagið.Hafði strax skoðanir og sýndi í verki að margt mætti betur og jafnvel miklu betur fara. Oft er sagt glöggt er gests augað. Kjartan lúrði ekki á því.
Félagar með skoðanir, þor og vilja eru virkjaðir strax hjá Létti. Ekki var nein undantekning með Kjartan. Kvíðalaust hent í stjórn og formann (2002-2005) auk ómælanlegs vinnuframlags, aukaverka og nefndasetu hjá félaginu síðan þá. Sem þakklætisvott fyrir vel unnin störf fyrir Hestamannafélagið Létti, hefur stjórn félagsins ákveðið að sæma Kjartan silfurmerki Léttis.
Áslaug Kristjánsdóttir, Áslaugu þarf ekki að kynna fyrir Léttismönnum. Hún hefur verið félagsmaður lengi og verið áberandi, bæði sem félagsmálamanneskja og líka fyrir að vera vel ríðandi. Áslaug tók snemma þátt í félagsmálum Léttismanna og þar áttu hestaíþróttir stóran sess. Hún var í fylkingarbrjósti þeirra sem vildu veg hestaíþrótta sem mestan og eftir að íþróttadeildin var formlega sameinuð félaginu þá var Áslaug ein af þeim sem hvað harðast barðist fyrir því að hestaíþróttir og íþróttamennska  skipuðu sér í öndvegi hjá félaginu. Áslaug hefur setið bæði landsþing hestamanna og ársþing ÍBA margoft og hefur lagt sitt af mörkum við að móta framtíðarskipulag hestaíþrótta. Bæði maður hennar Gunnar Frímannsson og dóttir þeirra Dagný hafa líka verið hestamenn af lífi og sál svo það má segja að hestamennskan sé sannkölluð fjölskylduíþrótt á þeirra heimili. Einnig hefur Áslaug ásamt Jónsteini Aðalsteinssyni tekið þátt í að þjálfa börn sem höllum fæti standa og notað til þess hesta og hefur það gefið þeim sem þar hafa verið ómælda ánægju og yndisauka í annars fábreyttri tilveru. Áslaug er vel að því komin að taka hér við silfurmerki Léttis.
Sigurður Hjaltason Sigurður er maður stór og fagurlimaður og minnir stundum á einhvern af hinum glæstu fornköppum Íslendingasagna. Sigurður er Skagfirðingur að ætt og uppruna og kemur það því engum á óvart að hann er forfallinn hestamaður, ferðamaður, söng- og dansmaður og þar sem Sigurður er, þar er engin drungi og doði. Að auki er Sigurður félagsmaður góður, duglegur að vinna fyrir sitt félag og kemur þar sér oft vel að hann er kunnugur rafmagni og dyntum þess. Sigurður og Úlla kona hans stunda hér hestamennsku af kappi og  sjaldan eru haldin mót hér eða í nágrenninu svo ekki sé annað þeirra eða bæði mætt þar. Sigurður er líka mikill ferðamaður á hestum og hefur ferðast um landið þvert og endilangt undanfarin sumur. Má oft sjá Sigga með stóra kippu af hrossum í kringum sig en hann teymir ósjaldan 4-6 hross með sér. Ekki er laust við að margur öfundi Sigga af þeirri kúnst því oftast nægir það mönnum að vera með 1-2 í hendi. Fyrir störf sín í þágu Léttis hlýtur Sigurður silfurmerki Léttis.

Sigurður Jónsson: Fyrir nokkrum tugum ára, upp úr 1970, hófu bræður tveir hesthúsbyggingu í hinu nýja hverfi hestamanna á Akureyri, Breiðholtinu. Þetta voru þeir Sigurður og Kristján Jónssynir og þeir voru ekki smátækir, tvístætt skyldi það vera og hátimbrað. Kristján flutti nokkrum árum síðar vestur í Stóradal í Húnavatnssýslu en Sigurður hélt áfram hestamennsku en nú bættust nýir húsfélagar við í stað Kristjáns. Sigurður náði sér nefnilega í magnaða hestakonu úr Skagafirðinum , hana Júlíu, eða Diddu Dúdda, og kom sonur hennar hann Sigurjón nú til liðs við Sigga og saman stunduðu þeir hestamennsku af kappi. Sigurður hafði gott auga fyrir hestum, átti góð hross og sennilega er hún Rauðka hans, sem sumir kölluðu Bollu þegar þeir öfunduðust út í Sigga, þeirra eftirminnilegust. Sigurður var lengi í Sörlastaðanefnd fyrir Létti og lagði þar margt til og eins fram á Melgerðismelum þegar þurfti að kalla til smiði. Sigurður er nú hættur hestamennsku a.m.k. um hríð en án efa blundar enn í honum sami hugurinn og var til staðar þegar hesthúsið var reist forðum. Fyrir störf sín fyrir félagið hlýtur Sigurður silfurmerki Léttis.



Silfurmerkishafar.


Guðmundur Hjálmarsson með hesthúsabikarinn.


Efnilegasti knapinn, Björgvin Helgason.