Um 6.000 komnir með áskrift að myndböndum Landsmóta á WorldFeng

Íslandshestafélagið í Svíþjóð, SIF-Avel, hefur keypt áskrift að LM myndböndum í WF fyrir alla félagsmenn sína sem eru með virkan aðgang að WF. Það þýðir að í dag eru alls um 6.000 áskrifendur með aðgang að myndbandasafni WorldFengs. Auk Svía þá hafa Belgar og Norðmenn keypt aðgang fyrir sína félagsmenn, auk Félags hrossabænda á Íslandi. Tillaga sem stjórn LH lagði fyrir Landsþings LH í haust um að opna aðgang fyrir alla félaga í Landssambandi hestamanna náði ekki fram að ganga, en hestamannafélögum innan landssambandsins býðst að kaupa aðgang fyrir sína félaga á sama hagstæða verðinu og öllum stendur til boða, eða 350 kr. fyrir félagsmann fyrir 365 daga ársins. Það er minna en króna á dag! Öll myndbönd af kynbótahrossum Landsmótsins 2018 eru nú orðin hluti af myndbandabanka WF. Og eins og glöggir áskrifendur hafa vonandi séð þá eru myndgæði í hæsta gæðaflokki mun meiri en áður var, vegna nýrrar vinnsluaðferðar sem er notuð. Samhliða tókst að minnka stærð myndbanda umtalsvert, sem skiptir máli við vistun myndbandabankans. Áfram er unnið að því að koma öllum hrossum sem kepptu á síðasta landsmóti inn, og vonandi lýkur þeirri vinnu á fyrstu mánuðum nýs árs. Frétt fengin af heimasíðu WorldFengs