Tvö gullverðlaun á lokadegi Norðurlandamóts

14. ágúst 2022
Fréttir
Matthías Sigurðsson og Roði frá Garði

Íslendingar náðu gullverðlaunum í tveimur greinum á lokadegi Norðurlandamóts í dag.

Matthías Sigurðsson og Roði frá Garði eru Norðurlandameistarar í tölti ungmennaflokki með 7,06 í einkunn. Matthías var fjórði inn í úrslit en reið af miklu öryggi og landaði gullinu.

Leikur frá Lækjamóti II og Helga Una Björnsdóttir eru Norðurlandameistarar í a-flokki gæðinga. James Faulkner var knapi á Leiki í forkeppninni en hann var einnig með Eldjárn frá Skipaskaga í a-úrslitum og enduðu þeir í 7. sæti. Glæsilegur árangur það.

Úrslit í B-flokki fóru þannig að Kári frá Ásbrú ásamt færeyska knapanum Knut A. S. Lütsen eru Norðurlandameistarar. Til hamingju Færeyingar! Okkar knapi í úrslitum Hanna Rún Ingibergsdóttir og Leistur frá Toftinge enduðu í 7. sæti.

Jakob Svavar Sigurðsson og Hálfmáni frá Steinsholti riðu A-úrslit í tölti T1 og enduðu í 6. sæti með 7,72 í einkunn. Norðurlandameistari í tölti er Sys Pilegaard frá Danmörku á hestinum Abel frá Tyrevoldsdal með 8,83.

Í tölti í unglingaflokki er Norðurlandameistari Lára Garðarsdóttir Hesselman og Álfur frá Knutshyttan  en þau keppa fyrir Svíþjóð.

Í slaktaumatölti báru sigur úr býtum Julie Christiansen frá Danmörku og Felix frá Blesastöðum 1A.

Keppt var í 100 m. skeiði í morgun í öllum aldursflokkum. Í unglingaflokki voru Daninn Mathilde H. Vesterg og Skutla frá Kvistum fyrstar á tímanum 8,94 sek. Í ungmennaflokki voru Finninn Gerda-Eerika Viinanen og Svala frá Minni-Borg fljótastar en þær fóru á tímanum 8,04 og í flokki fullorðinna Svíinn Filippa Hellten og Óðinn frá Inchree á 7,50 sek.

Norðurlandameistari í fjórgangi fullorðinna er Daninn Frederikke Stougård og Austri frá Úlfsstöðum með 7,90 og þau urðu einnig samanlagðir sigurvegarar í fjórgangsgreinum.

Norðurlandameistari í fimmgangi fullorðinna er Norðmaðurinn Erik Andersen og Farsæll frá Midtlund með 7,33 og þeir urðu einnig samanlagðir sigurvegarar í fimmgangsgreinum.

Samanlagðir sigurvegarar fjórgangsgreina í ungmennaflokki eru Beatrice von Bodungen Thelin og Hörður frá Varmadal frá Svíþjóð og í unglingaflokki Palma Sandlau Jacobsen og Sjóli von Teland frá Danmörku. Samanlagðir sigurvegarar fimmgangsgreina í ungmennaflokki eru Amelie Segerström og Kopar frá Sunnuhvoli frá Svíþjóð og í unglingaflokki Tekla Petersson og Vatnadís från Noastallet frá Svíþjóð.

Íslendingar unnu samtals þrjú gullverðlaun, eitt silfur og þrjú brons á Norðurlandamótinu og megum við vera stolt af árangri okkar fólks.