Tilnefningar til LH-félaga ársins - netkosning

03. maí 2022
Fréttir

LH – félagi ársins eru hvatningarverðlaun fyrir sjálfboðaliða og félaga hestamannafélaga sem vinna fórnfúst og óeigingjarnt starf í þágu hestamennskunnar.

Stjórn LH óskaði eftir tilnefningum frá aðildarfélögum LH að félaga ársins, ásamt rökstuðningi fyrir valinu. Í kjölfarið var skipuð nefnd sem valdi fimm tilnefningar sem kosið er um í netkosningu á vef LH. Við mat á tilnefningum setti nefndin sér ákveðin viðmið og eru þau eftirfarandi:

Félagi ársins er einstaklingur sem:

  • Er virkur í félagsstarfinu og dregur aðra með sér
  • Hefur rifið upp félagsstarfið í sínu félagi
  • Er brautryðjandi í félagsstarfinu
  • Hefur mikil áhrif á heildarhagsmuni síns félags og félagsmanna þess

Eftirfarandi eru tilnefndir til LH-félaga ársins fyrir óeigingjarnt starf í þágu hestamanna.

Jóna Mjöll Halldórudóttir - Hestamannafélaginu Dreyra
Jóna Mjöll Halldórudóttir vann ótrúlega gott og kraftmikið starf í fyrra. Hún starfaði ein í æskulýðsnefndinni en þrátt fyrir það skipulagði hún námskeiðahald og hélt ungliðastarfinu gangandi þrátt fyrir erfiðar og krefjandi  ytri aðstæður.  Jóna Mjöll var dugleg við að  hvetja krakka að taka þátt  og  það varð mikil aukning af nýjum ungum félagsmönnum í Dreyra sem er dæmi um góða afurð eftir hennar starf í fyrra.  Þar að auki var hún mikil hamhleypa við að aðstoða mótanefnd við mótahald og við að safna styrkjum frá fyrirtækjum og útvega ýmsar gjafir frá fyrirtækjum sem fylgdu með verðlaunum á mótum.  Jóna Mjöll er afar fylgin sér og kallar ekki allt ömmu sína í þeim verkefnum sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún vann sérlega óeigingjarnt starf fyrir börn og ungmenni og var sannkallaður úrvals bústólpi í starfi sínu með mótanefnd. 

Jónas Björnsson - Hestamannafélaginu Hendingu
Jónas Björnsson er fæddur 9. ágúst 1935 og hefur verið félagi í Hestamannafélaginu Hendingu síðastliðin 30 ár. Allt frá því að hann gekk í félagið hefur hann verið mjög virkur félagsmaður og sinnt margvíslegum störfum. Hann sat í stjórn félagsins í fjögur ár og þar af eitt sem formaður. Jónas er mjög fórnfús félagsmaður og vinnur enn í dag þar sem félagið þarfnast krafta hans. Hann hefur verið ötull við að aðstoða yngri hestamenn við að koma undir sig fótunum í hestamennskunni. Það hefur hann gert með því að láta þá hafa pláss fyrir hross sín og vera til staðar á allan þann hátt sem þeir þurfa. Hann hefur verið einn af þeim sem leiðir byggingu íþróttamannvirkja sem nú rísa á svæði félagsins í Engidal við Skutulsfjörð. Til að mynda hefur hann eytt nánast öllum sínum frítíma við að aðstoða við að reisa reiðhöllina sem nú er að verða fulltilbúin. Þar hefur hann unnið sem smiður, handlangari og allt annað sem til fellur. Áður en að þessari vinnu kom vann hann hörðum höndum að því að þetta yrði að veruleika með því að vera óþrjótandi við að hvetja þá áfram sem stóðu í fararbroddi og ræða þá hluti opinberlega þegar þess þurfti til að koma bæjarbúum í skilning um að þetta væri það sem hestamenn virkilega þörfnuðust til að geta stundað íþrótt sína á ársgrundvelli.

Ragnhildur Bjarney Traustadóttir - Hestamannafélaginu Herði
Ragnhildur Bjarney Traustadóttir hefur verið virkur félagi frá því hún gekk í Hörð og leggur mikið upp úr að fólk í kringum hana í hestamennskunni sé skráð í félagið og allir þeir sem hún nær til á svæðinu.  Hún var kosin í stjórn Harðar 2008 og hefur setið óslitið síðan og hefur einnig gegnt stöðu gjaldkera í nærri 10 ár.  Alla tíð hefur hún unnið að félagsstörfum á ýmsum sviðum og lagt hart að að sér til að efla félagið. Hún skipuleggur skemmtanir með mat og drykk, undirbýr og gengur frá.  Hún eldar mat fyrir starfsfólk móta og heldur utanum rekstur þeirra.  Alltaf fyrst á staðinn að undirbúa og síðust heim. Ragnhildur hefur farið í broddi fylkingar í endurbótum á Harðarbóli undanfarin ár, innanhúss og utan og haldið utanum þau verkefni af festu, vakin og sofin.  Harðarból er enda gengið í endurnýjun lífdaga sem glæsilegt félagsheimili sem er eftirsótt til útleigu og skemmtanahalds. Skógarhólar njóta einnig góðs af hennar einstöku framtakssemi, hún tekur virkan þátt í uppbyggingu þar.

Hún drífur fólk  með sér, sýnir einurð og ákveðni og ber hag Harðar fyrir brjósti í einu og öllu. Endalaust á vaktinni fyrir félagið því hún er “hvort sem er vöknuð” eins og hún segir sjálf.  Þessar kótilettur elda sig ekki sjálfar! Ragnhildur er svo sannarlega vel að viðurkenningu komin og er útnefnd félagsmaður ársins hjá Herði.

Sævaldur Jens Gunnarsson - Hestamannafélaginu Hring
Sævaldur Jens Gunnarsson er Hringsfélagi ársins 2021 og er svo sannarlega vel að því kominn. Hann er á margan hátt hinn fullkomni félagsmaður. Sævaldur hefur verið í Hring frá fæðingu og var virkur í félagsstarfi sem barn og unglingur. Eftir að Sævaldur flutti aftur heim hefur hann haldið því áfram og er verulega duglegur í félagsstarfi Hrings. Hann kom inn í stjórn félagsins árið 2008 og hefur setið þar síðan sem gjaldkeri og hefur leyst það verkefni einkar vel og er rekstur félagsins á góðum stað. Þess má geta að það er lengsta samfellda stjórnarseta í stjórn Hrings frá stofnun félagsins árið 1962. Auk stjórnarsetu hefur hann sinnt hinum ýmsu nefndarstörfum svo sem formennsku í reiðveganefnd þar sem hann hefur verið mjög ötull. Ásamt stjórnarsetu sinni og setu í reiðveganefnd situr hann í nefnd sem skipuð var árið 2020 sem skoðar nú möguleika á byggingu nýrrar reiðhallar fyrir Hring. Það er ætíð auðvelt að leita til Sævaldar, en hann er alltaf boðinn og búinn að hjálpa til við þau störf sem snúa að hestamannafélaginu og gerir það með bros á vör.

Fyrir utan trúnaðarstörf fyrir félagið þá er Sævaldur duglegur að ríða út og þjálfa hesta sína. Hann sækir flest þau námskeið sem haldin eru í Hringsholti og er áhugasamur og duglegur að sækja sér aukna þekkingu til þess að verða betri knapi. Einnig er hann duglegur að taka þátt á mótum á vegum félagsins og er þá alltaf klæddur í félagsbúning Hrings. Fyrir nokkrum árum keypti Sævaldur hesthús þar sem kominn var tími á mikið viðhald. Eftir vinnu hefur hann dundað í því að breyta hesthúsinu og smíða nýtt og er það nú orðið með glæsilegri hesthúsum í Hringsholti.

Sævaldur Jens Gunnarsson er duglegur og sannur Hringsfélagi og verulega vel að þessum titli kominn.

Valur Valsson - Hestamannafélaginu Neista
Valur Valsson var kosinn í stjórn Neista þegar Hestamannafélagið Neisti og Óðinn sameinuðust. Hann var í stjórn og eða sem formaður frá þeim tíma þar til fyrir u.þ.b. 2 árum. Hann var ýmist formaður eða stjórnarmeðlimur og oftast í mótanefnd. Fyrsta mótið sem hann sá um var 1991 og hefur komið að fjölmörgum mótum síðustu 30 árin. Nú í seinni tíð hefur mótanefnd séð um vetrarmótin sem eru haldin í reiðhöllinni á Blönduósi og geta verið 3 - 4 mót að vetri. Hér áður fyrr voru mótin einungis haldin á sumrin og voru eitt eða tvö talsins. Mótanefndin sér um allan undirbúning og mótahaldið sjálft.

Valur tók dómararéttindi 1994 og landsdómararéttindi 2003 og hefur verið dómari á Landsmóti hestamanna síðan 2004. Valur hefur einnig verið liðtækur í gegnum árin að aðstoða börn sem og fullorðna fyrir stórmót, segja þeim til hvernig best sé að undirbúa sig og hverju sé verið að leitast eftir í dómi. Hann var þá með börn uppá velli nokkur kvöld fyrir mót að leiðbeina þeim. Landsmót UMFÍ var haldið á Blönduósi árið 1995 og sá hann til að mynda um að þjálfa þau börn sem tóku þátt.

Valur hefur lagt mikið og óeigingjarnt starf til hestamannafélagsins, hefur verið lengi í stjórn og nefndum og er því vel að tilnefningunni kominn.

Kosningningu er lokið