Tilkynning frá Landsmóti hestamanna ehf.

30. desember 2014
Fréttir

Reykjavík, 30. desember 2014. 

Landsmót hestamanna ehf. gaf út tvö DVD diskasett fyrir jólin. Annars vegar fjórfaldan disk með hápunktum frá Landsmóti hestamanna 2014 og hins vegar tvöfaldan disk með kynbótahrossum. Því miður hefur komið í ljós að diskurinn Kynbótahross stenst ekki þær kröfur sem lagt var upp með. Af þeim sökum er þeim sem keypt hafa diskinn eða fengið hann að gjöf boðið að skila honum gegn fullri endurgreiðslu. 

Hægt verður að skila disknum á skrifstofu Landsmóts hestamanna að Engjavegi 6 í Laugardal milli 9 og 16 alla virka daga frá og með mánudeginum 5. janúar 2015. Einnig er hægt að póstleggja diskinn til Landsmóts hestamanna ehf., Engjavegi 6, 104 Reykjavík, ásamt upplýsingum um nafn, kennitölu og bankareikning en Landsmót hestamanna mun einnig endurgreiða póstburðargjaldið. Athugið að ekki er hægt að skila disknum á endursölustaði. 

Stjórn Landsmóts hestamanna mun á næstu dögum og vikum leggja mat á hvort gefinn verður út nýr og endurbættur diskur með kynbótahrossum frá Landsmóti hestamanna 2014. 

Stjórn Landsmóts hestamanna biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa valdið. 

Virðingarfyllst, 
f.h. stjórnar Landsmóts hestamanna ehf., 
Elías Blöndal Guðjónsson