Þolkappreið þvert yfir Ísland

Iðunn Bjarnadóttir, sigurvegari fyrstu Þolkappreiðar LH og Hermann Árnason koma í mark eftir fyrsta …
Iðunn Bjarnadóttir, sigurvegari fyrstu Þolkappreiðar LH og Hermann Árnason koma í mark eftir fyrsta legg.

Í vikunni fór fram prufumót í alþjóðlegri þolkappreið sem LH hefur verið með í undirbúningi undanfarna mánuði.

Hófst keppni síðastliðinn miðvikudag á Lýtingsstöðum í Skagafirði þaðan riðið yfir Kjöl. Komu keppendur í mark á Skógarhólum á Þingvöllum síðdegis á laugardag eftir um 240 kílómetra reið um hálendi Íslands á fjórum dögum.

Að þessu sinni tóku fjögur lið þátt en keppnin fer þannig fram að þrír eru saman í liði, einn knapi, tveir aðstoðarmenn og þrír hestar. Eru tveir hestar notaðir hvern dag og einn hvíldur. Hverjum hesti er riðið um 25-35 km. leið í senn og aðrir hestar keyrðir á milli áfangastaða. Var Helgi Sigurðsson dýralæknir með í för og fylgdist vel með ástandi hestanna allan tímann. Á hverjum áfangastað er mæld öndun, púls og líkamlegt ástand hestanna og refistig eru gefin fyrir of háan púls og fyrir áverka ef einhverjir eru.

Þolkappreið er einföld og auðskiljanleg íþrótt sem snýst um að ríða hesti ákveðna vegalengd á tíma og að hesturinn sé í góðu líkamlegu ástandi á endastöð. Þolkappreið er andleg þrautabraut fyrir sál og líkama. Knapar þurfa að vera vakandi yfir ástandi hestsins og hafa velferð hestsins ávallt að leiðarljósi.

Þessi keppnisgrein er þekkt um allan heim og nýtur mikilla vinsælda víða. Ef vel tekst til má búast við að keppnisgrein sem þessi geti vakið enn frekari athygli og áhuga á íslenska hestinum, ferðalögum á íslenska hestinum og Íslandi almennt. Einnig eru bundnar vonir við að þessi keppni muni vekja athygli almennings sem alla jafna fylgjast ekki með hestamennsku og þannig náð til breiðs hóps áhorfenda bæði í sjónvarpi og á vefnum og verið skemmtileg viðbót við aðrar keppnisgreinar hestamennskunnar hér á landi þar sem aðrar hestgerðir og fleiri knapar eiga möguleika á að láta ljós sitt skína.

Aníta Aradóttir starfsmaður LH er helsti hugmyndasmiður keppninnar, ásamt Helga Sigurðssyni, en hún tók þátt í Mongólíukappreiðinni árið 2014 þar sem keppendur ríða yfir 1.000 kílómetra á 10 dögum en einnig hafa aðrir starfsmenn LH og undirbúningshópur á vegum sambandsins komið að undirbúningi og framkvæmd keppninnar. Helsti styrktaraðili keppninnar var Cintamani, LH þakkar stuðninginn. Þá ber að þakka þeim sem studdu við verkefnið með ýmsum hætti og ekki síst þeim hestaferðafyrirtækjum sem settu saman lið fyrir keppnina. Þrír kvikmyndatökumenn fylgdu keppninni eftir frá upphafi til enda og tóku upp mikið af efni sem mun án efa rata fyrir augu áhorfenda fyrr en síðar.

Þess má geta að aldrei hefur verið haldin þolkappreið af þessari stærðargráðu á Íslandi áður og í ljósi margra óvissuþátta við að halda svona erfiða keppni var ákveðið að skala mótið niður í ár til að safna saman þekkingu og reynslu ásamt mynd- og kynningarefni með það fyrir augum að skoða möguleikann á að halda mótið að ári í fullri stærð.

Í þessari fyrstu keppni tóku fjögur lið þátt og urðu úrslit eftirfarandi:

Í fyrsta sæti var Iðunn Bjarnadóttir á 18 klst. og 40 mínútum, en hún keppti fyrir lið Riding Iceland Saltvík.  

Í öðru sæti varð Annie Whelan frá Bandaríkjunum á 18 klst. og 52 mínútum, en hún keppti fyrir lið Íslandshesta.

Í þriðja sæti varð Hermann Árnason á 19 klst. og 3 mínútum, en hann keppti fyrir lið Hermanns hestaferða.

Fjórði varð Musse Hasselvall frá Svíþjóð á 19 klst. og 4 mínútum en hann keppti fyrir lið Eldhesta.

Ánægjulegt er að segja frá því að engin meiðsl eða áverkar urðu á hestum eða mönnum ef frá er talið lítið sár á framanverðum fæti eftir að hestur rak sig í grjót og enginn hestur missti skeifu á leiðinni.

Almenn ánægja var meðal þátttakenda hvernig til tókst. Erlendu keppendurnir sem báðir hafa keppt víða um heim höfðu orð á því að með þetta umhverfi, náttúru og þennan sterka hest hefðu Íslendingar alla möguleika til að gera góða hluti með þessa keppnisgrein í framtíðinni.

  • Iðunn Bjarnadóttir og Moldi
  • Knapar í fyrstu Þolkappreið LH, Iðunn Bjarnadóttir, Annie Whelan, Hermann Árnason og Musse Hasselvall
  • Musse Hasselvall og Flipi
  • Iðunn Bjarnadóttir og Goði
  • Annie Whelan
  • Hermann Árnason og Árdís
  • Iðunn Bjarnadóttir og Moldi
  • Sigurlið Riding Iceland, Iðunn Bjarnadóttir, Hjörtur og Elsa Björk Skúladóttir og Hjörtur Skúlason
  • Aníta Aradóttir bendir Amy, aðstoðarmanni Annie, á keppanda í fjarska
  • Iðunn og Hermann