Skógarhólar í nýjum búning

27. ágúst 2020
Fréttir

Síðastliðið haust ákvað stjórn LH að fara í lagfæringar á húsi LH á Skógarhólum. Stærsta viðhaldsverkefnið var að skipta um þak á húsinu en vitað var að þetta yrði mikil framkvæmd sem þarfnaðist mikils undirbúnings. Eggert Hjartarson staðarhaldari á Skógarhólum hafði umsjón með verkinu.

Hestamennirnir og húsasmiðirnir Róbert Gunnarsson úr Spretti, Karl Gústaf Davíðsson úr Mána og Kristján Gunnarsson úr Mána tóku að sér verkið og útveguðu til þess þrjá menn til viðbótar þá Eirík Ólafsson, Orra Sigurjónsson og Ivica Buric. Verkið var allt unnið í sjálfboðavinnu sem er ómetanlegt fyrir félagasamtök eins og LH og þökkum við þeim kærlega fyrir óeigingjarnt starf. Þeir Róbert, Karl og Kristján hafa heimsótt Skógarhóla og riðið um þjóðgarðinn á hverju sumri í árafjöld og hafa því sterkar taugar til staðarins.

Hafist var handa þann 20. ágúst og átti framkvæmdum að ljúka daginn eftir. Þegar búið var að opna þakið kom í ljós að ástand þaksins var mun verra en talið var. Þetta varð til þess að verkið tók fjóra heila daga og fóru rúmlega 400 vinnustundir í verkið.

Þau fyrirtæki sem að auki studdu okkur rausnarlega í þessu verkefni voru Límtré-Vírnet og Húsasmiðjan.

Aðrir sem lögðu til vinnuframlag voru Gríma Huld Blængsdóttir úr Sörla, Margrét Dögg Halldórsdóttir úr Herði, Arnar Bjarnason úr Fáki og Gunnlaugur Björgvinsson úr Mána, ásamt starfsfólki skrifstofu LH.

Færum við öllum sem komu að verkinu okkar bestu þakkir.

Þessar lagfæringar á þakinu auka notkunarmöguleika hússins og lengja þann tíma sem hægt er að nýta húsið á hverju ári. Þakviðgerðirnar eru einnig forsenda fyrir frekari lagfæringum á húsinu.

Meðfylgjandi myndir sína framkvæmdirnar stig af stigi.