Sveinn Guðmundsson látinn

31. maí 2013
Fréttir
Sveinn situr Hrafnkötlu á LM1970 á Skógarhólum/FÞ
Sveinn Guðmundsson hrossaræktandi frá Sauðárkróki er látinn. Ræktun Sveins frá Sauðárkróki markaði djúp spor í ræktun íslenska hestsins og hann átti stóran þátt í þeim framförum sem urðu í hrossarækt síðastliðna áratugi.

Sveinn Guðmundsson hrossaræktandi frá Sauðárkróki er látinn. Ræktun Sveins frá Sauðárkróki markaði djúp spor í ræktun íslenska hestsins og hann átti stóran þátt í þeim framförum sem urðu í hrossarækt síðastliðna áratugi. Í rúma hálfa öld var Sveinn í fremstu röð hrossaræktenda en eins flestir vita sýndi Sveinn hina frægu Ragnars-Brúnku árið 1954 sem síðar varð stofnhryssa í ræktun Sveins. Afkvæmi hennar og afkomendur þeirra hafa skilað gríðarlega mörgum gæðingum sem ræktaðir hafa verið af þeim feðgum Sveini og Guðmundi syni hans síðustu áratugi.

Sveinn var formaður hestamannafélagsins Léttfeta í áratugi og vann alla tíð ötullega að félagsmálum hestamanna í Skagafirði. Sveinn hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf að ræktun íslenska hestsins og var meðal annars sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu. Landssamband hestamannafélaga gerði hann að heiðursfélaga árið 2010 fyrir störf sín í þágu íslenska hestins.

Landssamband hestamanna vottar aðstandendum og vinum Sveins samúð um leið og þakkað er fyrir þau fjölmörgu verk sem Sveinn innti af hendi fyrir hrossaræktina og hestamennskuna í landinu.

Á myndinni með fréttinni situr Sveinn Hrafnkötlu 3526 frá Sauðárkróki á LM1970 á Skógarhólum. Hún var þá 4v og fékk 1. verðlaun í kynbótadómi með 8,54 í aðaleinkunn. Hrafnkatla var undan Andvara 501 frá Varmahlíð og Síðu 2794 frá Sauðárkróki, dóttir Ragnars-Brúnku. Hrafnkatla er m.a. móðir Oturs og er formóðir margra glæsilegra stóðhesta sem Ísland hefur alið.