Sveinn er með yfirburðastöðu

26. mars 2009
Fréttir
Sveinn Guðmundsson í hópi góðra vina á ráðstefnunni um Sauðárkrókshrossin. Ljósm: Sögusetur íslenska hestsins.
„Sveinn Guðmundsson er með yfirburðastöðu í íslenskri hrossarækt,“ segir Ágúst Sigurðsson, rektor á Hvanneyri og fyrrverandi hrossaræktarráðunautur. Á ráðstefnu um hrossarækt Sveins sem haldin var á Sauðárkróki flutti Ágúst erindi þar sem fram komu tölfræðilegar staðreyndir um hlutdeild hrossa frá Sveini í íslenskri hrossarækt. „Sveinn Guðmundsson er með yfirburðastöðu í íslenskri hrossarækt,“ segir Ágúst Sigurðsson, rektor á Hvanneyri og fyrrverandi hrossaræktarráðunautur. Á ráðstefnu um hrossarækt Sveins sem haldin var á Sauðárkróki flutti Ágúst erindi þar sem fram komu tölfræðilegar staðreyndir um hlutdeild hrossa frá Sveini í íslenskri hrossarækt.

„Það fer ekkert á milli mála að hlutur Sveins er langstærstur. Það brölt sem hann hóf í hrossarækt fyrir miðja síðustu öld hefur reynst vera það sem aðrir hrossaræktendur sækja helst í. Upphafið að hans ræktun má rekja til Ragnars-Brúnku. Undan henni fékk Sveinn þær Flugu og Síðu. Fluga reyndist allvel og áhrifa hennar gætir töluvert ennþá.

Hlutur Síðu er hins vegar miklu stærri. Um 90% allra íslenskra hrossa eiga ættir að rekja til hennar. Hún á 6,6% af því erfðaefni sem er í hrossastofninum í dag og er mesta ættmóðir stofnsins. Til samanburðar þá á stóðhesturinn Hrafn frá Holtsmúla, sem á mesta hlutdeild allra hrossa í stofninum, 10% af erfðaefninu.

Í því sambandi má ekki gleyma Goða 401 frá Sauðárkróki. Sveinn sá þennan fola tveggja vetra og keypti hann á staðnum. Hann hafði óbilandi trú á honum og notaði hann. Goði var hins vegar eineistungur og fékk geldingardóm, eins og frægt var. Undan honum er Fenja frá Sauðárkróki, sem er móðir Blossa frá Sauðárkróki, sem er faðir Hervars frá Sauðárkróki. Og svo er Goði langalangafi Hrafns frá Holtsmúla.

Eflaust á dugnaður og eftirfylgni Sveins sinn þátt í vinsældum Sauðárkróks hrossanna. En þetta eru þau gen sem menn hafa sorterað úr. Sörli 71 frá Svaðastöðum og Skuggi 201 frá Bjarnanesi höfðu svipaða stöðu í kring um 1980. En eftir það fara að skiljast leiðir og hlutur Sörla eykst. Hrossin frá Sveini eiga þar mestan þátt,“ segir Ágúst.