Svar við bréfi sveitarstjóra Skagafjarðar til LH

07. nóvember 2014
Fréttir
Landssamband hestamannafélaga

 

Þann 17. október síðastliðinn sendi Sveitafélagið Skagafjörður eftirfarandi bréf til þáverandi stjórnar LH.

Bréf frá Sveitarfélaginu Skagafirði

Í bréfi þessu er þáverandi stjórn borin þungum sökum um að  hafa starfað af óheilindum og brotið lög LH.

Því vill fráfarandi stjórn koma eftirfarandi svarbréfi á framfæri.

 

„Efni: Svar við bréfi sveitarstjóra Skagafjarðar til Landssambands hestamannafélaganna, dags. 17. október 2014.“

Með bréfi, dags. 8. október sl., tilkynnti stjórn Landssambands Hestamannafélaga (LH) þá ákvörðun sína að slíta viðræðum við Gullhyl ehf. um að Landsmót hestamanna 2016 yrði haldið að Vindheimamelum í Skagafirði. Af þessu tilefni ritaði sveitarstjóri sveitarfélagins Skagafjarðar bréf til Landssambands hestamanna.Í bréfinu er því ítrekað haldið fram að stjórn LH hafi brotið lög LH og haft í frammi óheiðarleg vinnubrögð í tengslum við viðræðuslitin. Ekki eru gerðar athugasemdir við að sveitarstjórinn láti málið til sín taka og reyni að stuðla að mótshaldi á Vindheimamelum. Það er hins vegar forkastanlegt að sveitarstjórinn skuli setja fram rakalausar fullyrðingar um lögbrot og óheiðarleg vinnubrögð stjórnar LH án þess að fyrir því sé nokkur stoð. Slíkar ásakanir eru enn alvarlegri fyrir þær sakir að sveitarstjóri ákvað að senda afrit af bréfinu til mennta- og menningarmálaráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, formanns fjárlaganefndar, formanns Bændasamtakanna, oddvita Akrahrepps og stjórn Gullhyls ehf.

Í ljósi framangreindra ásakanna teljum við rétt að árétta að samkvæmt ákvæði 6.1. í reglum LH er það stjórn sambandsins sem ákveður landsmótsstað hverju sinni í samráði við rekstaraðila (Landsmót ehf.). Óumdeilt er að samningar vegna Landsmóts 2016 höfðu ekki verið undirritaðir. Fráfarandi stjórn LH mat það svo að Skagfirðingar gætu ekki uppfyllt þær kröfur sem í dag er eðlilegt að gera til mótshaldara og keppnissvæða. Því var útséð að samningar næðust ekki. Í framangreindu ákvæði 6.1. í reglum LH kemur fram að staðarval skuli endurskoðað náist ekki samningar um mótshaldið. Samkvæmt þessu ætti að vera hafið yfir vafa að stjórn LH fór í einu og öllu eftir reglum sambandsins hvað þetta varðar.

Sérstaka athygli vekur að sveitarstjórinn tiltekur ekki í bréfi sínu þau ákvæði laga LH sem hún fullyrðir að stjórnin hafi brotið. Ástæðan er væntanlega sú að sveitarstjórinn fann hinum alvarlegu ásökunum sínum hvorki stað í lögum né reglum LH.

Dylgjum sveitarstjórans um óheiðarleika stjórnar LH er harðlega mótmælt. Stjórn LH tilkynnti um ákvörðun sína um viðræðuslit um leið og hún lá endanlega fyrir. Harmar stjórn LH hversu seint það var eins og áður hefur komið fram. Staðarval landsmóts er á forræði stjórnar LH. Stjórnin taldi hins vegar mikilvægt að ákvörðun lægi fyrir áður en kæmi að Landsþingi LH. Vildi stjórnin þannig stuðla að upplýstri og málefnalegri umræðu um framtíðarskipan landsmóta. Það voru því mikil vonbrigði þegar umræðan festist í skotgröfum byggðapólitíkur en snerist ekki um hagsmuni íslenska hestsins á landsvísu.

Í störfum sínum hefur fráfarandi stjórn LH ávallt leitast við að setja hagsmuni íslenska hestsins í forgang. Í því skyni hefur stjórnin talið sér skylt að búa landsmótum þá umgjörð að mótin eflist og þróist til framtíðar. Staðarval landsmóts er sannarlega viðkvæm ákvörðun. Sú staðreynd má hins vegar ekki leiða til þess að hvikað sé frá því meginmarkmiði að efla vöxt og viðgang hestamennsku í landinu.“

 

Fyrir hönd fráfarandi stjórnar

 

Haraldur Þórarinsson,

Fráfarandi formaður LH