Styttist í úrtöku fyrir HM

28. maí 2009
Fréttir
Jóhann SKúlason og Hvinur frá Holtsmúla heimsmeistarar í tölti 2005
Einar Öder Magnússon landsliðseinvaldur og landsliðsnefnd LH boðaði til fundar um málefni landsliðsins síðastliðinn þriðjudag, 26.05.09, í Reiðhöll Fáks. Einar Öder greindi frá fyrirkomulagi úrtökunnar fyrir HM09 sem haldin verður á félagssvæði Fáks 16.-18. júní. Einar Öder Magnússon landsliðseinvaldur og landsliðsnefnd LH boðaði til fundar um málefni landsliðsins síðastliðinn þriðjudag, 26.05.09, í Reiðhöll Fáks. Einar Öder greindi frá fyrirkomulagi úrtökunnar fyrir HM09 sem haldin verður á félagssvæði Fáks 16.-18. júní. Hann lagði áherslu á að keppendur væru vel vakandi yfir hinum minnstu áverkum og sárum því reglur væru mjög strangar hvað það varðaði og hart yrði tekið á þeim málum. Einnig sagði hann frá að mótssvæðið út í Sviss er þröngt og ekki mikil víðátta til upphitunar, knapar ættu að byrja að venja sig við það strax.
Bjarnleifur Bjarnleifsson, formaður Landsliðsnefndar, sagði frá nýjum reglum ÍSÍ en þar segir að sömu reglur gilda um aðstoðarmann knapa og knapann sjálfan hvað varðar áfengis- og lyfjanotkun. Lyfjapróf verða gerð bæði á knöpum og hestum.
Hulda G. Geirsdóttir alþjóðlegur dómari fór yfir ýmsa punkta er varða keppni og punkta sem komu fram á fundi dómara sem munu dæma á Heimsmeistaramótinu. Greindi hún frá því að nýtt blað hefur verið gefið út fyrir skeið í fimmgangi, þar er sýnt hvar hesturinn á að fara á skeið og hvernig frádrættir reiknast. Hvetjum við alla til að kynna sér leiðarann vel. Hægt er að nálgast allar reglur og leiðara á www.feif.org. Hulda greindi frá því að hart verður tekið á grófri reiðmennsku, horft verður sérstaklega á hendur knapa og fylgst vel með fótaábendingum knapans. Form hestsins verður skoðað sérstaklega og leitast er eftir hesti sem er frjáls en ekki samandreginn og þvingaður. Öll mél sem notuð verða í keppninni verða skráð niður, hófar verða mældir, fylliefni skoðuð, járningar og fótaáverkar.
Susanne Braun verður dýralæknir landsliðsins á HM2009 í Sviss. Hún lagði mikla áherslu á hjá knöpum að fylgjast vel með munni hesta sinna. Ef sár væru til staðar að fylgjast vel með þeim, aldri þeirra og stærð. Blóðlituð froða þýðir að knapi er umsvifalaust dæmdur úr leik. Susanne benti knöpum líka á að kynna sér vel hvaða efni og lyf má nota þegar líður að móti því sum lyf geta mælst allt að sex vikum eftir notkun og benti þá t.d. á sterakrem sem geta mælst mjög lengi eftir notkun.
Að lokum hvatti Einar Öder fólk til að standa saman og hvetja landsliðið áfram til dáða því landslið Íslands og árangur þess erlendis endurspeglaði það sem væri að gerast í hestamennskunni á Íslandi. Bjarnleifur tók undir það og sagði að liðsheildin hefði skilað ótrúlegum árangri. Einn fyrir alla og allir fyrir einn. ÁFRAM ÍSLAND!