Styrktu reiðþjálfun fatlaðra um rúmar tvær milljóni

Í dag var í fjórða sinn afhentur veglegur styrkur til góðgerðarmála á vegum Hrossaræktar ehf. Styrkupphæðin er afrakstur stóðhestahappdrættis og uppboðs á folatollum og listaverki, sem fram fóru í tengslum við Stóðhestaveisluna svokölluðu sl. vetur. Hrossarækt ehf.  hefur áður styrkt Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, LAUF félag flogaveikra og Duchenne samtökin á Íslandi, en í ár fór styrkurinn til fræðslunefndar fatlaðra hjá hestamannafélaginu Herði í Mosfellsbæ,  þar sem boðið er upp á reiðþjálfun fyrir fatlaða á öllum aldri. Starfsemin í Herði er rekin á sjálfboðaliðastarfi að stórum hluta og kemur styrkurinn sér vel enda þarf töluverðan búnað, hestakost og aðstöðu, auk starfsfólks, til verkefnisins. 

Magnús Benediktsson framkvæmdastjóri Hrossaræktar ehf. afhenti styrkinn sem að þessu sinni var kr. 2.119.000.

Við afhendinguna sagði Hulda G. Geirsdóttir fjölmiðlafulltrúi Hrossaræktar ehf. að gaman væri að sjá að hestamenn gætu staðið saman um að gera góða hluti og þakkaði hrossaræktendum sem gáfu folatolla í happdrætti og uppboð, listakonunni Helmu sem gaf málverk, fyrirtækjunum Spónn.is og Hringdu fyrir sitt framlag og ekki síst öllum þeim hestamönnum sem keyptu tolla á uppboði eða happdrættismiða og lögðu þannig sitt af mörkum. “Það er ekki sjálfgefið að fá verðmæti eins og þessi, folatolla undir marga bestu stóðhesta landsins og yngri vonarstjörnur. Við erum afskaplega stolt og glöð yfir því að geta styrkt þetta frábæra starf í Herði, sem hefur gefið góða raun og borið mikinn árangur. Hesturinn okkar er fjölhæfur og nýtist í ótalmargt, hann gefur mikið af sér og bætir bæði andlega og líkamlega heilsu þeirra sem hann umgangast. Við vitum að styrkurinn kemur að góðum notum og verður aðstandendum starfsins vonandi hvatning til áframhaldandi góðra verka,” sagði Hulda. 

Reiðþjálfun fatlaðra er opin öllum sem áhuga hafa og er hægt að finna upplýsingar um starfið á Facebook síðunni “Fræðslunefnd fatlaðra Hestamannafélagið Hörður” eða á vefsíðu Harðar www.hordur.is
Um þessar mundir eru 28 nemendur á sex námskeiðum, fólk með mismunandi þarfir og á ýmsum aldri og er leitast við að koma til móts við alla. Þjálfunin fer fram bæði innan- og utandyra og fylgir fjöldi aðstoðamanna þátttakendum. Þegar afhending styrksins fór fram voru nokkrir nemendur á vegum M.S. félagsins nýkomnir úr reiðtúr og létu þeir sérstaklega vel af starfinu sem þeir sögðu bæði skemmtilegt og góða þjálfun.

Þeir sem vilja leggja verkefninu lið geta lagt inn á eftirfarandi reikning: 0549-26-2600  Kt. 650169-4259

 

Mynd:
Frá afhendingu styrksins, Magnús Benediktsson afhenti Hólmfríði Halldórsdóttur ávísun upp á kr. 2.119.000 að viðstöddum fulltrúum Hrossaræktar ehf. og fræðslunefndar fatlaðra hjá Herði, auk þátttakenda frá M.S. félaginu sem stunda reiðþjálfunina.

 

Myndband – isibless.is:
https://www.youtube.com/watch?v=jViqwWqyd3s&feature=youtu.be