Stórbrotnir gæðingar í stóðhestaveltunni

15. apríl 2022
Fréttir
Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum

Stóðhestavelta landsliðsins er á sínum stað í tengslum við Allra sterkustu sem haldið verður í TM-reiðhöllinni í Víðidal á síðasta vetrardag, miðvikudagskvöldið 20. apríl nk.  Um 100 folatollar verða í pottinum sem stóðhestaeigendur hafa gefið til styrktar landsliðinu. LH þakkar stuðninginn.

Miðsala í stóðhestaveltunni hefst þriðjudaginn 19. apríl í netverslun á vef LH og er miðaverð 50.000 kr. Einn tollur er á hverjum seldum miða.

Miðasala á Allra sterkustu er í netverslun LH.

Við kynnum næstu 10 stóðhesta til leiks:

Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum 8,94
Álfaklettur hefur í kynbótadómi hlotið 9,5 fyrir skeið og samstarfsvilja, 9,0 fyrir tölt, hægt tölt, brokk, stökk og fegurð í reið. Hann stóð efstur á landssýningu 2020 í flokki stóðhesta 7 vetra og eldri. Myndband af Álfakletti

Apollo frá Haukholtum 8,68
Apollo hefur hlotið í kynbótadómi 8,76 fyrir sköpulag og 8,63 fyrir hæfileika, þar af 9,5 fyrir tölt, hægt tölt, samræmi og hófa, 9,0 fyrir vilja og geðslag, fegurð í reið, háls/herðar/bóga og bak og lend. Myndband af Apollo

Forkur frá Breiðabólsstað 8,67
Forkur frá Breiðabólsstað var efstur í flokki 5 vetra stóðhesta á Landmóti 2016 og fimmti í flokki 7 vetra stóðhesta á Landsmóti 2018. Forkur bar sigur úr býtum í slaktaumatölti í Meistaradeild Líflands 2022. Myndband af Forki

Kolgrímur frá Breiðholti Gbr. 8,39
Kolgrímur hefur hlotið í kynbótadómi 8,62 fyrir sköpulag og 8,26 fyrir hæfileika, þar af 9,0 fyrir tölt, brokk, greitt stökk, samstarfsvilja og fegurð í reið. Myndband af Kolgrími

Magni frá Stuðlum 8,52
Magni frá Stuðlum var hæst dæmdi 5 vetra stóðhestur á árinu 2021. Hann hlaut fyrir sköpulag 8,74, þar af 9 fyrir bak og lend, samræmi, hófa og prúðleika. Fyrir hæfileika hlaut hann 8,40, þar af 9 fyrir skeið og samstarfsvilja. Myndband af Magna

Lexus frá Vatnsleysu 8,15
Lexus frá Vatnsleysu hefur m.a. hlotið í kynbótadómi 9,0 fyrir tölt, brokk, vilja og geðslag, fegurð í reið og bak og lend. Myndband af Lexus

Silfursteinn frá Horni I 8,47
Silfursteinn hefur hlotið í kynbótadómi 8,39 fyrir sköpulag, þar af 9 fyrir háls/herðar/bóga og samræmi, og 8,52 fyrir hæfileika, þar af 9 fyrir tölt, samstarfsvilja og fet. Myndband af Silfursteini

Snæfinnur frá Hvammi 8,27
Snæfinnur frá Hvammi hefur hlotið fyrir hæfileika 8,20 sem klárhestur, þar af 9,5 fyrir samstarfsvilja, 9 fyrir tölt, brokk, fegurð í reið og hægt tölt. Myndband af Snæfinni

Snillingur frá Íbishóli 8,46
Snillingur frá Íbishóli hefur átt farsælan keppnisferil í fimmgangi og gæðingaskeiði. Hann hlaut í kynbótadómi 9,5 fyrir skeið og 9 fyrir vilja og geðslag. Myndband af Snillingi

Vákur frá Vatnsenda 8,36
Vákur hefur hlotið í kynbótadómi 9,5 fyrir samstarfsvilja, 9,0 fyrir tölt, hægt tölt, brokk, hægt stökk, fet og fegurð í reið. Myndband af Váki