Stóðhestaveisla - Skeiðgreinar - Meistaradeild VÍS

19. apríl 2009
Fréttir
Ás frá Ármóti, knapi Hafliði Halldórsson.
Á sumardaginn fyrsta verður blásið til veislu í Ármóti. Þá verður keppt í 150m skeiði og gæðingaskeiði í Meistaradeild VÍS en jafnframt verður boðið upp á stóðhestaveislu. Á sumardaginn fyrsta verður blásið til veislu í Ármóti. Þá verður keppt í 150m skeiði og gæðingaskeiði í Meistaradeild VÍS en jafnframt verður boðið upp á stóðhestaveislu.

Happdrættið verður enn veglegra en áður og nú verða prentaðir 500 miðar og kostar happdrættismiðinn 2.000 krónur. Dregnir verða út 10 miðar og fær hver miðaeigandi að draga úr folatollum undir þá stóðhesta sem verða kynntir.

Miklar framkvæmdir standa nú yfir í Ármóti til að gera aðstæður fyrir alla sem bestar. Hafliði hefur lýst því yfir að þetta verði gamla stóðhestasýningin í Gunnarsholti í öðru veldi. Þar sem sýningin er á Sumardaginn fyrsta má búast við fjölda fólks og þarna verður mikil stemming og mikið fjör.

Veitingasala verður hin veglegasta og er Toni veitingasali í Ármóti kominn á fullt í að skipuleggja kræsingarnar sem verða bæði í fljótandi og föstu formi.

Þeir hestar sem koma fram á stóðhestakynningunni verða til sýnis í hesthúsinu bæði fyrir og eftir sýningu.

Fjöldi þekktra stóðhesta hafa skráð sig en ný nöfn verða birt á heimasíðu Meistaradeildar VÍS www.meistaradeildarvis.is næstu daga, en hér kynnum við fyrstu 5 hestana:

 

Ás frá Ármóti  (sköpulag 8.00, hæfileikar 8.75, aðaleinkunn 8.45)

Dugur frá Þúfu (sköpulag 8.35, hæfileikar 8.46, aðaleinkunn 8.42)

Ómur frá Kvistum  (sköpulag 8.24, hæfileikar 8.85, aðaleinkunn 8.61)

Möller frá Blesastöðum  (sköpulag 8.00, hæfileikar 8.95, aðaleinkunn 8.57)

Þristur frá Þorlákshöfn  (sköpulag 8.42, hæfileikar 8.39, aðaleinkunn 8.40)Nú er um að gera fyrir alla hestamenn að taka daginn frá og mæta í Ármót á Sumardaginn fyrsta og eiga þar góðan dag.