Stóðhestaveisla í Ölfushöll á laugardaginn - Forsala hafin

27. mars 2013
Fréttir
Hin árlega stórsýning, Stóðhestaveislan, fer fram laugardaginn 30. mars nk. Í Ölfushöllinni á Ingólfshvoli. Þar munu koma fram stóðhestar á ýmsum aldri, landsmótssigurvegarar og stjórstjörnur í bland við yngri vonarstjörnur víðs vegar af landinu.

Hin árlega stórsýning, Stóðhestaveislan, fer fram laugardaginn 30. mars nk. Í Ölfushöllinni á Ingólfshvoli. 

Þar munu koma fram stóðhestar á ýmsum aldri, landsmótssigurvegarar og stjórstjörnur í bland við yngri vonarstjörnur víðs vegar af landinu.

Meðal hesta sem koma fram eru hinn magnaði Óskasteinn frá Íbishóli, von er á Hrannari frá Flugumýri og Arion frá Eystra-Fróðholti, A-flokks sigurvegararnir Ómur frá Kvistum og Fróði frá Staðartungu gleðja gesti og heimsmethafinn Nói frá Stóra-Hofi sýnir sig ásamt mörgum öðrum.

Heiðurshestur sýningarinnar að þessu sinni er Galsi frá Sauðárkróki.

Sýningin  hefst kl. 20 og er miðaverð kr. 3.500 í forsölu, en kr. 4.000 við innganginn. Undanfarin ár hefur ávallt verið uppselt á þessa sýningu og því vissara að tryggja sér miða í tíma. Forsalan fer fram hjá N1 á Ártúnshöfða í Reykjavík, í Mosfellsbæ, Hveragerði, Selfossi og Hvolsvelli sem og í helstu hestavöruverslunum. Að venju fylgir bókin „Stóðhestar“ aðgöngumiðanum en í henni er að finna upplýsingar um tæplega þrjú hundruð stóðhesta á Íslandi, en bókin er 324 síður.  

Fyrr um daginn halda Hrossaræktarsamtök Suðurlands ungfolasýningu á sama stað og hefst sköpulagsmat folanna kl. 12:30.

Dómarar raða efstu fimm folunum í hvorum flokki og áhorfendur velja síðan álitlegasta folann í hverjum flokki. Efstu dómaravöldu folarnir úr hvorum flokki munu koma fram á stóðhestaveislunni um kvöldið.

Semsagt sannkölluð stóðhestaveisla í Ölfushöllinni frá morgni til kvölds á laugardaginn. Allir velkomnir!