Stóðhestar í röðum

02. apríl 2014
Fréttir
Sökkull á sýningu í Hafnarfirði 2013 / Eiðfaxi.is
Það er gaman að sjá stóðhesta í öðruvísi aðstæðum, eins og til dæmis á ís. Áhorfendur Ístöltsins á laugardagskvöldið kemur fá að sjá átta glæsilega stóðhesta dansa á svellinu í Skautahöllinni í Laugardal. Á mánudaginn var, voru þrír kynntir til leiks, þeir Ölnir frá Akranesi, Pistill frá Litlu-Brekku og Daggar frá Einhamri.

Það er gaman að sjá stóðhesta í öðruvísi aðstæðum, eins og til dæmis á ís. Áhorfendur Ístöltsins á laugardagskvöldið kemur fá að sjá átta glæsilega stóðhesta dansa á svellinu í Skautahöllinni í Laugardal. Á mánudaginn var, voru þrír kynntir til leiks, þeir Ölnir frá Akranesi, Pistill frá Litlu-Brekku og Daggar frá Einhamri.

Næstu þrír stóðhestar sem kynntir verða eru þessir glæsigripir:

Sproti frá Enni er á sjötta vetur, brúnn glæsihestur undan Orra frá Þúfu og Sendingu frá Enni. Sproti er fyrstu verðlauna klárhestur með 8.43 fyrir sköpulag og 8.15 fyrir hæfileika, þar af fimm níur! Ræktendur eru Haraldur Þór Jóhannsson og Eindís Kristjánsdóttir, eigendur þær Eindís og Kristbjörg Eyvindsdóttir.

Sökkull frá Dalbæ er rauðstjörnóttur glófextur foli á fimmta vetur undan Álfi frá Selfossi og Auðlind frá Dalbæ (Víkingur frá Voðmúlastöðum). Hann er klárhestur, var sýndur í fyrra, 4v gamall og fór í fyrstu verðlaun, þar af 9.0 fyrir tölt, brokk og vilja og geðslag. Það var Már Ólafsson sem ræktaði Sökkul en eigandi nú er Kvitdalen Heseavlslag.

Magni frá Þjóðólfshaga 1 er fæddur 2007, verður því 7v í vor. Hann er móálóttur að lit, undan Tindi frá Varmalæk og Bjöllu frá Hafsteinsstöðum. Magni er alhliða hestur með 8.27 í aðaleinkunn, jafn á kosti sína með 8.32 fyrir hæfileika. Ræktendur og eigendur eru þau Sigríður og Sigurður í Þjóðólfshaga 1.

Enn eigum við eftir að kynna tvo flotta stóðhesta til leiks og gerum við það á morgun fimmtudag.

Landsliðsnefnd LH