Mótsstjórnir fjalli um brot á keppnisreglum

Eins og áður hefur komið fram er dómsúrskurður dómstóls ÍSÍ í máli 9/2020 á þá leið að einungis yfirdómnefnd eða mótsstjórn á hverju móti hafi heimild til að kæra agamál sem upp koma á mótum til aganefndar LH.

Í ljósi þessa dóms hefur stjórn LH óskað eftir því við mótsstjórnir Metamóts 2020 og Skeiðleika 2 2020 að þær meti hvort endurskoða skuli mótsskýrslur þessara móta í ljósi atvika sem áttu sér stað á þessum mótum þar sem keppnisreglur LH voru brotnar með því að sama keppnispar keppti í bæði 150m og 250m skeiði. Mótsstjórnir ofangreindra móta meti hvort gera skuli athugasemd um ofangreind brot og hvort þeim beri að vísa til aganefndar LH. Aðkoma stjórnar LH að atvikum þessum er þar með lokið.