Starfsreglur nefndar um knapaval

 

Greinargerð

nefnd um knapaval og viðurkenningar LH

á Uppskeruhátíð hestamanna

 

1.gr.

Nefndin skal þannig skipuð: Formaður skipaður af stjórn LH, einn fulltrúi frá GDLH, einn fulltrúi frá HÍDÍ, einn fulltrúi frá keppnisnefnd LH, einn fulltrúi frá Félagi tamningamanna, og einn starfandi kynbótadómari sem tilnefndur er úr þeirra hópi. Einn til tveir fulltrúar tilnefndir af fjölmiðlum í hestamennsku. (Hestablaðamenn teljast þeir sem fjalla um og fylgjast með keppni og hestamennsku megnið af árinu. Þeir þurfa að hafa sýnt fram á að þeir hafi þekkingu og innsýn í reiðmennskulistina og fylgist með reiðmennsku og keppni af áhuga. Einnig að þeir séu hlutlægir í skrifum sínum og fjalli um viðfangsefnið á gagnrýninn, en sanngjarnan hátt. Formaður nefndarinnar hefur samband við VIRKA fjölmiðla á sviði hestamennsku. Miðlarnir koma sér saman um einn til tvo fulltrúa í valnefndina).

 

2.gr.

Nefndin er á ábyrgð stjórnar LH og skal skipa hana til eins árs í senn, ekki síðar en í apr/maí ár hvert. Skilar hún af sér tillögu að vali á knöpum ársins til stjórnar LH eigi síðar en tveimur vikum fyrir Uppskeruhátíð hestamanna hverju sinni. Fundargerðir og skýrslur nefndarinnar skulu varðveittar á skrifstofu LH. Nefndin er bundin af ákvörðun stjórnar um hve marga knapa skuli tilnefna og heiðra hverju sinni. Starfsmaður LH sér um að útvega gögn frá knöpum, sem nefndin gerir skrá um, um keppnisárangur á árinu.

 

3.gr.

Valdir skulu: Íþróttaknapi ársins, Skeiðknapi ársins, Gæðingaknapi ársins, Kynbótaknapi ársins, Efnilegasti knapi ársins, og Knapi ársins. Tilnefndir skulu fimm knapar í hverjum flokki. Þá eru, þegar tilefni þykir til, veitt sérstök heiðursverðlaun. Þau eru veitt eldri hestamanni/konu fyrir framlag sitt til hestamennsku í sinni víðustu mynd.

 

4.gr.

Við val á knöpum ársins skal tekið tillit til árangurs á árinu: Ástundunar, prúðmennsku og íþróttamannlegrar framkomu innan vallar sem utan, og reglusemi. Knapi ársins í hverjum flokki er valinn sá sem talinn er hafa náð framúrskarandi árangri á sviði reiðmennsku og frammistaða hans sé álitin reiðmennskunni til framdráttar. Hvort sem um er að ræða eitt afgerandi afrek, eða frábæran árangur í mörgum greinum á mörgum mótum. Kynbótaknapi, horft skal til ungra og efnilegra knapa sem sýna háttvísi, tilþrif og frábæra reiðmennsku í kynbótasýningum. Efnilegasti knapinn skal valinn úr ungmennaflokki, en sé það ekki nokkur kostur að tilnefna ungmenni skal litið til unglingaflokks. Sérstaklega skal höfð að leiðarljósi fyrirmynd fyrir unga reiðmenn í einu og öllu. Knapi getur aðeins hlotið þennan titil einu sinni.

 

5.gr.

Við val þeirra sem viðurkenningar hljóta skal gaumgæfa árangur jafnt hér heima sem erlendis (WR og stórmót). Nefndin þarf að rökstyðja hverja tilnefningu. Nefndarmenn eru bundnir trúnaði um allt sem rætt er innan nefndarinnar og starfar hún fyrir stjórn LH eingöngu. Nefndarinnar er ekki getið á heimasíðu LH og ekki er gefið upp hverjir sitja í nefndinni. Hún er kölluð saman af formanni eins oft og þurfa þykir. Nefndin skal koma með tillögur að kynningu knapavals til stjórnar, svo og ef, henni þykir þörf á breytingum varðandi vinnulag nefndarinnar.

 

6.gr.

Sú ræktun sem skilar flestum hrossum í keppni á vegum LH og FEIF hlýtur titilinn Ræktun keppnishrossa, þ.e. fyrir frábæran árangur hrossa í keppni, árangurs sem eftir er tekið. Til verðlaunanna skulu telja allar þær keppnisgreinar sem keppt er í undir merkjum LH og FEIF. Litið skal til árangurs nýliðins keppnistímabils hér heima og erlendis. Ræktandinn hlýtur titilinn „Ræktun keppnishrossa LH 2012“ og koll af kolli einnig til varðveislu í eitt ár og  nafn sitt á heiðurskjöld sem veittur verður í 10 ár og síðan varðveittur á sögusafni.