Spennuþrunginn laugardagur á Landsmóti

06.07.2024

Dásamlegur dagur í Víðidalnum í dag sem hófst á hörku spennandi B úrslitum. Strax í barnaflokki var spennan áþreifanleg enda gífurleg gæði og hæfileikar í þessum hóp. Una Björt Valdimarsdóttir á Öglu frá Ási áttu stórglæsileg sýningu og enduðu efstar með 8,75. Þá var komið að unglingunum og þar voru það þær Svandís Aitken Sævarsdóttir og Fjöður frá Hrísakoti sem stóðu upp sem sigurvegarar og koma í A úrslit á morgun með 8,88. Í ungmennaflokki voru það svo þeir Matthías Sigurðsson og Tumi frá Jarðbrú sem áttu rosalega sýningu og enduðu með 9,09.

Síðan tóku við verðlauna afhendingar fyrir stóðhesta og fór vel um gesti landsmóts í brekkunni á meðan okkar fallegustu gæðingar liðu um brautina í blíðviðrinu. Aldeilis frábær dagur í Víðidalnum.

Þá tóku við B úrslit í B flokki. Þar stóðu uppi sem sigurvegarar Pensill frá Hvolsvelli og Elvar Þormarsson með 9,01 í einkunn, þar strax á eftir hófstu svo B úrslit í A flokki og þar voru hlutskörpust Sirkus frá Garðshorni á Þelamörk og Hanna Rún Ingibergsdóttir með 8,92.

Eftir kvöldmat var komið að 100m flugskeiði og það var spenna fram á síðasta sprett en lengst af leiddi Sigursteinn Sumarliðason á Krókus frá Dalbæ á tímanum 7,48. Fast á hæla hans var Konráð Valur með báða sína hesta á tímanum 7,62. Konráð og Kastor áttu síðasta sprett dagsins og það mátti nánast heyra saumnál detta meðan brekkan fylgdist spennt með hvort spretturinn heppnaðist og það gerði hann og Kastor steinláguog bætti tíman í 7,45 og Konráð Valur því þrefaldur Landsmótssigurvegari í skeiði. Þvílíkur árangur hjá honum Kastor og Kjark.

Eftir spennuna í skeiðinu var komið að því að krýna sigurvegara sýningar ræktunarbúana og var það ræktunarbúið Íbishóll sem hlaut besta kosningu. Í framhaldinu veitti FT reiðmennsku viðurkenningu sína og var það Gústaf Ásgeir Hinriksson sem hlaut fjöðrina við hátíðlega athöfn.

Deginum lauk svo á A úrslitum í Tölti T1. Þar var heldur betur boðið upp á spennu og stórkostlegt tölt. Það er fátt sem jafnast á við að sitja í brekkunni með rúmlega 10000 þúsund manns í kvöldsólinni og horfa á keppni sem þessa. Þvílík ofur gæði, gleði og stemning. Sigurvegari í töltinu eftir hreint út sagt magnaða sýningu var enginn annar en Skarpur frá Kýrholti og Jakob Svavar Sigurðsson með einkunnina 9,39.