Smekkfullt á góðri Stóðhestaveislu á Króknum

05. apríl 2011
Fréttir
Auður Karen og Friðrik X heilluðu sýningargesti.
Stóðhestaveislan á Sauðárkróki tókst vel og komust færri að en vildu. Smekkfullt var á pöllunum og stemmingin góð enda húsið fullt af skemmtilegu fólki. Stóðhestaveislan á Sauðárkróki tókst vel og komust færri að en vildu. Smekkfullt var á pöllunum og stemmingin góð enda húsið fullt af skemmtilegu fólki. Fram komu rúmlega 30 hross, flest stóðhestar, en einnig komu nokkur afkvæmi. Hestakosturinn var frábær og engin leið að gera upp á milli allra þeirra góðu hesta sem glöddu gesti, en þó má segja að tvö atriði hafi heillað alla upp úr skónum, annars vegar frammistaða hinnar sex ára gömlu Auðar Karenar á Friðriki X frá V-Leirárgörðum og svo heiðrunin á höfðingjanum Kjarval frá Sauðárkróki. Auður Karen og Friðrik rúlluðu um gólfið, átakalaust og yfirvegað og sýndi sú stutta mikla fimi, frábært jafnvægi og eðlishæfileika sem hestamaður. Bergur Jónson, hrossaræktandi ársins, færði Auði glaðning frá hestavöruversluninni Ástund og Hrossarækt.is og hvatti hana til frekari dáða í hestamennskunni. Þess má til gamans geta að Auður Karen var heimsótt í hinum vinsæla sjónvarpsþætti Landanum á RÚV sl. sunnudag og geta þeir sem af misstu geta séð þáttinn á ruv.is.
Kjarval frá Sauðárkróki stendur á þrítugu og var hann heiðraður sérstaklega á sýningunni. Hann var leiddur inn af eiganda sínum og ræktanda Guðmundi Sveinssyni og tóku þeir við viðurkenningu frá Hrossarækt.is úr hendi Eyþórs Einarssonar hrossaræktarráðunautar í Skagafirði. Kjarval hefur markað djúp spor í íslenska hrossarækt og er enn að, en sl. sumar fyljaði hann 13 af þeim 15 hryssum sem hjá honum voru. Klárinn er í góðu standi og tók sig vel út á hallargólfinu. Honum til heiðurs dönsuðu hálfsystkinin Fláki og Alfa frá Blesastöðum 1A um gólfið, en þau eru undan Kjarvalsdóttur. Á heildina litið tókst þessi fyrsta Stóðhestaveisla norðanlands mjög vel og má reikna með að leikurinn verði endurtekinn að ári. Á Facebook síðu Reiðhallarinnar Svaðastaða má sjá mikinn fjölda skemmtilegra mynda frá veislunni.
Stóðhestaveisla á Suðurlandi mun fara fram nk. laugardag 9. apríl kl. 15 og er forsala miða hafin í Ástund og N1 á Ártúnshöfða, Hveragerði, Selfossi og á Hvolsvelli.
 
Myndir - Sveinn Brynjar Pálmason.