Sláturhúsum er óheimilt að taka við ómerktum hrossum eftir 1. apríl 2010

16. mars 2010
Fréttir
Reglugerð um einstaklingsmerkingar búfjár tók gildi árið 2005 þar sem m.a. er kveðið á um að skylt sé að skrá og einstaklingsmerkja öll hross eldri en 10 mánaða. Í byrjun voru hross fædd fyrir árið 2003 undanþegin merkingarskyldu en nú hefur sú undanþága verið felld úr gildi. Hross sem fædd eru árið 2008 og síðar skulu vera örmerkt en frostmerki eru viðurkennd í eldri hrossum, að því gefnu að þau séu læsileg. Reglugerð um einstaklingsmerkingar búfjár tók gildi árið 2005 þar sem m.a. er kveðið á um að skylt sé að skrá og einstaklingsmerkja öll hross eldri en 10 mánaða. Í byrjun voru hross fædd fyrir árið 2003 undanþegin merkingarskyldu en nú hefur sú undanþága verið felld úr gildi. Hross sem fædd eru árið 2008 og síðar skulu vera örmerkt en frostmerki eru viðurkennd í eldri hrossum, að því gefnu að þau séu læsileg. Á þeim 5 árum sem liðin eru frá gildistöku laganna hefur orðið afar jákvæð þróun í einstaklingsmerkingum hrossa en betur má ef duga skal.
Til að tryggja rekjanleika afurða, matvælaöryggi og útflutningshagsmuni er nauðsynlegt að herða eftirfylgni með merkingum hrossa.  Eigendur hrossa bera alla ábyrgð á að hross þeirra séu skráð og merkt. Ennfremur bera þeir ábyrgð á að hross sem þeir senda til slátrunar séu ekki í sláturbanni vegna lyfjameðhöndlunar. Dýralæknum er skylt að skrá allar lyfjameðhöndlanir í gagnagrunninn WF og koma þar fram upplýsingar um sláturfrest og sláturleyfishafar bera ábyrgð á að ómerkt hross (og þar af leiðandi ekki inni í lyfjaskráningakerfinu) séu ekki notuð í afurðir sem fara til manneldis.
Með vísan til framangreinds og 10. gr. laga nr. 96/1997 um slátrun og sláturafurðir, en þar segir að sláturdýr megi ekki vera haldin sjúkdómi né bera leifar lyfja eða annarra aðskotaefna sem geti verið hættuleg heilsu neytenda, verður frá og með 1. apríl n.k. óheimilt að láta afurðir af ómerktum hrossum fara til manneldis. 
Sláturleyfishöfum verður þá skylt að framfylgja eftirfarandi reglum:
1.    Óskráð og ómerkt hross: Ekki hægt að uppfylla kröfu um rekjanleika og matvælaöryggi. Afurðir fara því ekki til manneldis en má nýta í loðdýrafóður.
2.    Grunnskráð hross ómerkt /ólesanlegt eða merkt hross sem ekki er grunnskráð: Eigandi fær tækifæri til að sýna fram á eignarhald og að um réttan einstakling hafi verið að ræða (t.d. með því að einkenni svari til lýsingar í WF) enda fylgi hrossinu yfirlýsing um að svo sé og að hrossið hafi ekki fengið lyfjameðhöndlun undanfarna 6 mánuði ( 24 klst regla). Að öðrum kosti fara afurðir ekki til manneldis en má nýta í loðdýrafóður.
3.    Grunnskráð hross og einstaklingsmerkt: Merking sannreynd í sláturhúsi. Ef skemmri tími en 6 mánuðir eru frá örmerkingu skal hrossinu fylgja skrifleg yfirlýsing eiganda um að það hafi ekki fengið lyfjameðhöndlun á þeim tíma. Afurðir viðurkenndar til manneldis.
4.    Folöld yngri en 10 mánaða sem koma til slátrunar skulu merkt fæðingarnúmeri móður. Auðveldast er skrifa númerið á plastlímband í ljósum lit  og festa tryggilega við fax. Ef um stóra hópa er að ræða má notast við hlaupandi númer enda fylgi með skrá sem tengir þau númer við fæðingarnúmer mæðra.
Þeim sem vilja kynna sér forsögu málsins og/eða fá nánari upplýsingar, er bent á neðangreinda umfjöllun:
•    Aukin eftirfylgni með lögum sem eiga að tryggja að ekki séu lyfjaleifar í hrossakjöti sem birtist í Bændablaðinu 12. Janúar 2010 og á www.mast.is 3. febrúar 2010.
•    Veraldarfengurinn viðurkenndur af Evrópusambandinu sem rafrænn hestapassi á www.mast.is 4. febrúar 2010.