Skrúðreið í miðbæ Reykjavíkur

24. apríl 2018
Fréttir

Skrúðreið hestamanna verður á laugardaginn kemur, þann 28. apríl kl. 12:30 í miðbæ Reykjavíkur. Skrúðreiðin vekur gríðarlega jákvæða eftirtekt í miðborginni og er mikil lyftistöng fyrir mannlífið þar.

Skrúðreiðin telur um það bil 150 hesta og jafnmarga menn og í fararbroddi fer fjallkonan í skautbúningi ásamt fylgdarmanni. Borgarstjóri Reykjavíkurborgar mun taka þátt í skrúðreiðinni og setja Hestadaga formlega, en þeir standa frá 28. apríl - 1. maí. 

Reiðin hefur stöðvað við Hallgrímskirkju og reiðmenn stigið af baki, hlustað á söng og þar hefur borgarstjóri sett Hestadaga formlega. Á þessum tímapunkti gefst áhorfendum; ferðamönnum og almenningi, kostur á því að koma nær hestunum, klappa þeim og taka myndir. Þetta er vinsælt og margar „sjálfur“ verða til við þessi augnablik.

Síðan er stigið á bak aftur og haldið niður Skólavörðustíginn, Bankastrætið, yfir Lækjargötuna, Austurstræti, Pósthússtræti, Vonarstræti og stoppað aftur við Austurvöll. Þar verður lítið tónlistaratriði og aftur er fólki leyft að koma nær, klappa hestunum og hitta reiðmennina, sem eru á öllum aldri, oftar en ekki í íslenskum lopapeysum og brosandi út að eyrum. Eftir stoppið er haldið af stað Tjarnargötuna og í gegnum Hljómskálagarðinn á stígum og áfram að BSÍ og aftur á byrjunarreit að bílaplaninu við Læknagarð.

Það er gríðarlega góð skemmtun að pússa klárana og taka fjölskylduna með í miðbæjarreið. Allir velkomnir að taka þátt, einfaldlega sameinast í bíla og kerrur og mæta kl. 12:00 á malarstæðin við Læknagarð (við BSÍ). Reiðin leggur af stað kl. 12:30 upp Njarðargötuna. 

Viðburðurinn á Facebook er hér og þar má finna upplýsingar um tímasetningar og fletta nokkrum myndum frá fyrri árum. 

Sjáumst hress í miðbænum á laugardaginn kemur!