Skráning á Svellkaldar konur

07. mars 2012
Fréttir
Hið stórvinsæla ístöltsmót kvenna „Svellkaldar konur“ fer fram í Skautahöllinni í Laugardal í Reykjavík laugardaginn 17. mars nk. Hið stórvinsæla ístöltsmót kvenna „Svellkaldar konur“ fer fram í Skautahöllinni í Laugardal í Reykjavík laugardaginn 17. mars nk.
Mikil stemming er fyrir mótinu eins og alltaf, aðeins 100 pláss eru í boði á ísnum og hafa þau fyllst á örskotsstundu undanfarin ár. Hver knapi má aðeins skrá eitt hross til þátttöku svo sem flestir komist að.
Skráning hefst fimmtudaginn 8. mars nk. og mun standa til miðnættis sunnudaginn 11. mars. Skráning fer eingöngu fram á vefnum www.gustarar.is undir liðnum skráning. Greiðsla verður að fara fram með greiðslukorti samhliða til að skráning sé staðfest. Skráningargjald er kr. 5.000. Fyrstir skrá – fyrstir fá!

Keppt verður í þremur flokkum að venju og er mótið opið konum 18 ára og eldri (ungmennaflokkur og fullorðinsflokkur).

Keppnisflokkarnir eru:
  • Minna keppnisvanar – Hægt tölt og fegurðartölt.
  • Meira keppnisvanar – Hægt tölt, hraðabreytingar og fegurðartölt.
  • Opinn flokkur – Hægt tölt, hraðabreytingar og fegurðartölt.
Ekkert er snúið við og öll keppnin riðin upp á vinstri hönd. A og B úrslit í öllum flokkum.

Keppendur eru hvattir til að sýna metnað við flokkaskráningu. Knapi sem sigrað hefur í tilteknum flokki eða komist þrisvar sinnum í A-úrslit í einhverjum flokki, skal færast upp í næsta styrkleikaflokk fyrir ofan.

Til mikils er að vinna á mótinu en sigurvegarar í öllum flokkum munu fá folatolla undir glæsilega 1. verðlauna stóðhesta, auk þess að hampa ísfjöðrinni frá Mustad. Fjöldi aukaverðlauna er einnig í boði og munu allir verðlaunahafar mótsins fara hlaðnir heim.

Dómarar munu velja glæsilegasta parið úr hópi allra keppenda. Sérstaklega er litið til snyrtimennsku, klæðnaðar og hirðingar hests, samspil manns og hests og prúðmannlegrar reiðmennsku.

Þema mótsins í ár er „hálstau“ og eru konur hvattar til að skarta fallegu eða frumlegu hálstaui í keppninni.
Konur eru hvattar til að taka daginn frá sem og allir hestamenn, en gaman er að mæta í Skautahöllina og hvetja flotta knapa og hesta til dáða. Allur ágóði af mótinu rennur til íslenska landsliðsins í hestaíþróttum og gefa allir starfsmenn, undirbúningsnefnd og dómarar vinnu sína.

Fjöldi styrktaraðila kemur að mótshaldinu og eru þeim veittar þakkir fyrir.

Sjáumst í Laugardalnum 17. mars nk. !

Nefndin :)