Skemmtilegum Hólaferðum hæfileikamótunar lokið

14. desember 2023

Hæfileikamótun LH hefur verið starfrækt um nokkra ára skeið með það að markmiði að ýta undir uppbyggingu og nýliðun í afreksstarfi hestaíþrótta og efla færni ungra og efnilegra knapa í unglingaflokki (14-17 ára) sem stefna hátt í hestaíþróttinni. Yfirþjálfari hæfileikamótunar er Sigvaldi Lárus Guðmundsson og hefur hann tekið þátt í verkefninu frá upphafi. Aðspurður segir hann verkefnið hafa þróast vel: ,,Ásóknin hefur aukist ár frá ári og komast því miður færri að en vilja. Í ár eru til að mynda tveir 20 manna hópar og hafa sumir þátttakendur hæfileikamótunar verið með frá upphafi verkefnisins. Ég sé miklar framfarir hjá þeim krökkum sem hafa verið ár frá ári og er gaman að segja frá því að sumir þeirra eru þegar farnir að skila sér inn í U21 landsliðshópinn“.

Nú fyrir skemmstu fóru fram tvær vinnuhelgar á Hólum með sitthvorum hópnum og eru þær góð byrjun á vetrarstarfinu, hópurinn hittist og hristist saman. Á Hólum sá Þorsteinn Björnsson, ásamt Sigvalda, um reiðkennsluna. Einnig kom Ingunn Ingólfsdóttir við sögu aðra helgina.

Um vinnuhelgina á Hólum sagði Sigvaldi: ,, Þar fengu krakkarnir fjóra mismunandi reiðtíma. Hólaskóli hefur yfir að ráða 50 skólahestum og fengu þau að kynnast hluta þeirra. Það er góður skóli og áskorun að vinna með hesta sem þau þekkja ekki í þessum tímum og framkvæma mismunandi verkefni. Það voru almennir reiðtímar þar sem verið var að einbeita sér að stjórnun og ásetu á mismunandi reiðleiðum og farið yfir ábendingar og ábendingaröðun. Sætisæfingar voru gerðar þar sem hver og einn er hringteymdur og þannig hægt að einbeita sér að sjálfum sér, framkvæma jafnvægisæfingar ásamt því að æfa áseturnar. Þá var farið í skeiðtíma þar sem hver og einn fékk að prófa tvo skeiðhesta og leggja fjóra spretti þar sem lögð var áhersla á aðdraganda skeiðspretta, niðurtöku á skeið og niðurhægingu. Fjórði reiðtíminn snerist um fimiæfingar og hvernig nýta má þær til að hafa jákvæð áhrif á gangtegundir hestsins. Þá fengu hóparnir sýnikennslur frá Þorsteini reiðkennara á Hólum. Hann talaði m.a. um mikilvægi þess að vera meðvitaður um líkamsbeitingu hesta og hverju við getum horft eftir til að greina hana og af hverju þetta skiptir svo miklu máli fyrir okkur og hestana okkar. Einnig fengu krakkarnir tækifæri til að spyrja um atriði sem þeim voru hugleikin og reyndi hann að svara því eftir bestu getu.“

„Þessar heimsóknir heppnuðust ákaflega vel og ekki annað að sjá en að þátttakendurnir hafi lært mikið og um leið skemmt sér vel. Framundan eru síðan að tvær verklegar helgar eftir áramót þar sem krakkarnir mæta með sína eigin hesta í reiðkennslu; tvo reiðtíma yfir helgi, 40-45 mínútna tímar þar sem þeir fylgjast einnig með hverju öðru ásamt sýnikennslum og fyrirlestrum þar sem fjallað er um hin ýmsu málefni sem geta hjálpað þeim við að styrkja sig sem íþróttamenn og einstaklingar,“ segir Sigvaldi.

En hvað er það sem hann horfir til þegar valið er í hópinn? „Það sem ég hef í huga er meðal annars ástundun, áhugi, keppnisárangur og hvort krakkarnir séu þegar að sækja sér menntun og námskeið hjá reiðkennurum. Ég reyni að horfa til þess að þetta séu krakkar sem hafa mikinn metnað til að ná árangri. Auðvitað gengur stundum vel og stundum illa en maður sér að samt er haldið áfram af eljusemi. Við erum að leita að framtíðarknöpum Íslands og því skipir máli að koma auga á krakkana sem eru líklegir til að staldra við í þessu. En svo kemur vissulega fyrir að það eru efnilegir krakkar sem sækja um en komast ekki að en þá er ekkert annað að gera en að leggja sig áfram fram af krafti og koma ennþá betur undirbúin inn í verkefnið að ári”.

En ertu farinn að sjá einhvern ávinning af hæfileikamótuninni? ,,Já hiklaust, nú eru nokkur að byrja 3. og 4. árið sitt sem segir okkur að þátttakendur eru ánægðir með verkefnið. Þátttakendur í hæfileikamótun verða fyrirmyndir um leið og þeir koma inn í þetta og bind ég vonir við að það skapi jákvætt og gott hugarfar. Þátttakendur taka miklum framförum sem knapar og eru að koma betur undirbúnir í stærri verkefni eins og U21 landsliðið. Í ár eru fimm krakkar úr hópnum sem voru valdir í U21 en þeir völdu að halda líka áfram í hæfileikamótuninni samhliða því og var ákveðið að prófa það í ár og sjá hvernig það spilast saman. Þá eflir þetta félagslega þáttinn í hestamennskunni enda gaman og mikilvægt fyrir krakkana að kynnast öðrum á sama reki sem deila sama áhugamáli og það skiptir máli. Það myndast vinátta milli þeirra og þeir bæta sig sem hestamenn.“

Hvað er næst á dagskrá? „Framundan er önnur vinnuhelgi í janúar þar sem þátttakendur koma með sína eigin hesta og þar munum við hjálpa þeim við þjálfun á þeim eins og ég nefndi áðan. Þetta geta verið mismunandi verkefni milli knapa, einhver með alhliða hest en annar kannski með klárhest og við skoðum þessi verkefni með þeim“, segir Sigvaldi og bætir við: ,,En það er ekki nóg að taka þátt í verkefnum hæfileikamótunar, það skipir miklu máli að vera duglegur heima að þjálfa þess á milli til að undirbúa sig fyrir komandi verkefni á keppnistímabilinu. Hér eru ekki allir með verðmætustu og bestu hestana enda snýst þetta ekki bara um það heldur líka að sýna framfarir og metnað til að ná sem lengst í hestamennskunni.“

 

 

Hæfileikamótun LH 14-17 ára 2023-2024

Yfirþjálfari:

Sigvaldi Lárus Guðmundsson

Þátttakendur:

Anton Óskar Ólafsson , Geysir
Apríl Björk Þórisdóttir, Sprettur
Arnór Darri Kristinsson, Hringur
Árný Sara Hinriksdóttir, Sörli
Ásta Hólmfríður Ríkharðsdóttir, Sprettur
Bertha Liv Bergstað, Fákur
Dagur Sigurðarson, Geysir
Eik Elvarsdóttir, Geysir
Elín Ósk Óskarsdóttir, Hornfirðingur
Elísabet Líf Sigvaldadóttir, Geysir
Elísabet Vaka Guðmundsdóttir, Geysir
Elsa Kristín Grétarsdóttir, Sleipnir
Elva Rún Jónsdóttir, Sprettur
Embla Móey Guðmarsdóttir, Borgfirðingur
Eyvör Vaka Guðmundsdóttir, Geysir
Fanndís Helgadóttir, Sörli
Fjóla Indíana Sólbergsdóttir, Skagfirðingur
Friðrik Snær Friðriksson, Hornfirðingur
Gabriel Liljendal Friðfinnsson, Fákur
Haukur Orri Bergmann Heiðarsson, Snæfellingur
Hildur María Jóhannesdóttir, Jökull
Hjördís Halla Þórarinsdóttir, Skagfirðingur
Hrefna Kristin Ómarsdóttir, Fákur
Hulda Ingadóttir, Sprettur
Ída Mekkín Hlynsdóttir, Hornfirðingur
Jóhanna Sigurlilja Sigurðardóttir, Sprettur
Kolbrún Sif Sindradóttir, Sörli
Kristín Eir Holaker Hauksdóttir, Borgfirðingur
Kristín María Kristjánssdóttir, Jökull
Lilja Rún Sigurjónsdóttir, Fákur
Ragnar Bjarki Sveinbjörnsson, Sprettur
Ragnar Snær Viðarsson, Fákur
Róbert Darri Edwardsson, Geysir
Sigurbjörg Helgadóttir, Fákur
Snæfríður Ásta Jónasdóttir, Sörli
Steinunn Gunnlaugsdóttir, Sörli
Steinunn Lilja Guðnadóttir, Geysir
Svandis Aitken Sævarsdóttir, Sleipnir
Unnur Rós Ármannsdóttir, Háfeti
Viktor Óli Helgason, Sleipnir
Þórhildur Helgadóttir, Fákur
Þórhildur Lotta Kjartansdóttir, Geysir