Skeiðkeppni á „Allra sterkustu“

06. apríl 2017
Árni Björn sigraði í fyrra á Skímu frá Kvistum.

Landsliðsnefnd LH heldur á hverju ári glæsilegt mót til fjáröflunar fyrir íslenska landsliðið í hestaíþróttum, sem í ár heldur á HM í Hollandi í ágústmánuði.

Að þessu sinni hefur verið ákveðið að bæta við keppni í skeiði í gegnum höllina og það mun að sjálfsögðu auka enn á skemmtanagildi viðburðarins og bæta við upplifun sem tengist hraða og spennu fyrir áhorfendur! Í þessa keppni munu mæta fljótustu hestar landsins, hvorki meira né minna, eða eins og maðurinn sagði: Þeir allra sterkustu!

Töltkeppnin verður með hefðbundnu sniði og nú þegar hafa gríðarlega sterkir hestar staðfest þátttöku sína. Knaparnir eru í fremstu röð; heimsmeistarar, Íslandsmeistarar, Deildarmeistarar (já, það er mikið af sterkum deildum í gangi um allt land) og þar fram eftir götunum.

Til að mynda mun Syðri-Gegnishólagengið mæta sterkt til leiks en þau Elín og Bergur hafa barist um efstu sætin í mörgum greinum Meistaradeildar Cintamani í vetur. Þau koma með Frama og Kötlu frá Ketilsstöðum. Aðrir knapar úr baráttunni í Meistaradeildinni sem skráðir eru til leiks eru þeir Jakob Svavar Sigurðsson á hini fimu glæsihryssu Júlíu frá Hamarsey og Guðmundur Fr. Björgvinsson á Straumi frá Feti. Árni Björn Pálsson hefur staðfest komu sína einnig en spennandi verður að sjá hvaða hest hann mætir með.

Að vestan kemur svo Siguroddur Pétursson með Stegg frá Hrísdal. Þeir félagar sigruðu bæti tölt og fjórgang í Vesturlandsdeildinni og Siguroddur varð einnig hlutskarpastur í einstaklingskeppninni.

Austan úr Landeyjum koma vel kunnar kempur, þau Vignir Siggeirsson og Sara Ástþórsdóttir. Sara kemur með stóðhestinn Eldhuga frá Álfhólum.

Þetta verður sterkt! Siggi Sig kemur á Örnu frá Skipaskaga, Tóti Ragnars mætir með Hring frá Gunnarsstöðum, Edda Rún Ragnarsdóttir teflir fram Lausn frá Skipaskaga og Siggi Matt Arði frá Efri-Þverá.

Miðasalan hefst í dag fimmtudag 6.apríl og verður í verslunum Líflands Lynghálsi, Borgarnesi og Hvolsvelli, Top Reiter Ögurhvarfi og hjá Baldvini og Þorvaldi á Selfossi.

Miðaverð er óbreytt, aðgöngumiðinn er á 3.500 kr og happdrættismiðinn á 1.000 kr. Hægt verður að kaupa kombó, þ.e. 1 aðgöngumiða og 2 happdrættismiða saman á kr. 5.000. Glæsilegir vinningar verða í boði í happdrættinu en í 1.vinning er folatollur undir Óm frá Kvistum, 2.vinning er Eques Sella Plus hnakkur frá Líflandi og í 3.vinning er 65“ LG sjónvarp frá Elko, auk ýmissa aukavinninga.

Stóðhestaveltan er magnað fyrirbæri sem hefur tekist gríðarlega vel síðustu tvö árin. Í pottinum verða fyrstu verðlauna stóðhestar og þú velur þér lokað umslag fyrir 30.000 kr og lætur reyna á heppnina. Öruggt er að hljóta toll undir glæsilegan stóðhest, og það fyrir aðeins 30 þúsund kall!