Sjálfstæðisflokkur svarar spurningum LH

24. apríl 2009
Fréttir
Ásta Möller, þingmaður og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins.
Landssamband hestamannafélaga boðaði til fundar í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal 20. apríl þar sem mættu fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna sem bjóða fram til þings. Haraldur Þórarinsson, formaðu LH, kynnti þingmönnum tilgang og markmið sambandsins og skýrði í megindráttum starfssemi þess. Landssamband hestamannafélaga boðaði til fundar í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal 20. apríl þar sem mættu fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna sem bjóða fram til þings. Haraldur Þórarinsson, formaðu LH, kynnti þingmönnum tilgang og markmið sambandsins og skýrði í megindráttum starfssemi þess.

Allir stjórnmálaflokkarnir höfðu áður fengið sendan spurningalista með sjö spurningum frá LH, sem varða hagsmuni hestamanna. Óskað var eftir svörum við öllum spurningunum. Á fundinum fór Haraldur yfir spurningalistann og svaraði fyrirspurnum frá frambjóðendum, sem sýndu málinum mikinn áhuga. Svör flokkanna verða birt hér á heimasíðu LH um leið og þau berast.

Hér með birtast svör frá Ástu Möller, þingmanni og frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins:

INNGANGUR:

Spurningar til stjórnmálaflokka frá Landsambandi hestamannafélaga fyrir alþingiskosningarnar 2009.

Landssamband hestamannafélaga (LH) er þriðja stærsta sérsambandið innan ÍSÍ.  Reynslan sýnir að um þrír til fjórir aðilar fylgja hverjum þeim sem skráður er í félagi í hestamannafélag.  Félagar í LH eru nú um 12.000 sem þýðir að um 35.-40.000 manns stundi hestamennsku reglulega hérlendis.
Landsmót hestamanna er einstakur íþróttaviðburður og sá eini á Íslandi sem dregur að sér hátt í 15 þúsund gesti, þar af er um fjórðungur erlendir gestir sem sækja Ísland gagngert heim vegna viðburðarins.  Hestamennska er ein fjölskylduvænasta íþrótt sem um getur.  Í hestamennsku þekkist ekki kynslóðabil, allir geta stundað hestamennsku saman.  Allir finna eitthvað við sitt hæfi og getu; íþróttakeppni, gæðingakeppni, útreiðar, náttúruskoðun eða að eiga rólega stund með hestum sínum eftir amstur dagsins.

Í aðdraganda kosninga vorið 2009 fer stjórn Landsambands hestamanna fram á það við þá sem bjóða fram lista til alþingis að þeir svari nokkrum spurningum er varða hagsmuni hestamanna.


Svör til Landssambands hestamannafélaga frá Sjálfstæðisflokknum:

1.    Er þinn flokkur tilbúinn  til þess að tryggja í vegalögum að reiðvegir séu flokkaðir þannig að réttur hestamanna sé tryggður á ákveðnum (götum) vegum og þá um leið umferð mótorknúinna ökutækja bönnuð nema sem um getur í 5. gr. a. 1.mgr. umferðalaga?

Svar Sjálfstæðisflokksins:
Skv. 26. gr. vegalaga er heimilt í samgönguáætlun að veita fé til almennra reiðstíga samkvæmt sérstakri áætlun sem gerð skal að höfðu samráði við samtök hestamanna og sveitarfélög.  Skv. samgönguáætlun er 62 milljónum króna varið til reiðstíga á fjárlögum 2009.  Að auki hafa sveitarfélög lagt til fjármagn til reiðvegagerðar. 

Það er almennur skilningur að umferð vélknúinna ökutækja og hestamanna fari ekki saman og byggir það fyrst og fremst á öryggissjónarmiðum. Það á reyndar einnig við um aðskilnað umferðar hestamanna annars vegar og reiðhjólamanna og gangandi umferðar hins vegar.  Skipulagsmál um reiðvegagerð og umferð gangandi og hjólandi/akandi vegfarenda þurfa að taka mið af slíkum öryggissjónarmiðum. 

Þá er mikilvægt að koma við aukinni kynningu á ólíkum þörfum vegfarenda og  stuðla að aukinni tillitsemi milli hópa, samfara aukinni löggæslu. Það er því skoðun Sjálfstæðisflokksins að nauðsynlegt sé að aðskilja hestaumferð frá annarri umferð fyrst og fremst af öryggisástæðum og er hann reiðubúinn að skoða hvort nauðsynlegt sé að gera lagabreytingar til að tryggja það.  

2.    Árlega skapast gjaldeyristekjur upp á 12 til 14 milljarða króna í kringum íslenska hestinn og hestatengda ferðaþjónustu.  Er þinn flokkur tilbúinn að beita sér fyrir auknu fé til reiðvegamála t.d. ½ til 1% af þeim gjaldreyri sem hestamennskan skapar?
 
Svar Sjálfstæðisflokksins:
Við þær efnahagsaðstæður sem við búum við nú er ekki raunhæft að ætla að aukið fjármagn fari til reiðvegagerðar af opinberu fé í náinni framtíð. Hins vegar má skoða hugmyndir um sérstaka fjármögnun til reiðvegagerðar með opnum huga til framtíðar.

3.  Telur þinn flokkur ástæðu til að færa reiðvegi frá umferðarþungum akvegum?

Svar Sjálfstæðisflokksins:
Full ástæða er til að færa reiðvegi frá umferðarþungum akvegum.  Það ætti reyndar að vera sérstakt kappsmál bæði skipulagsaðila og hestamanna að reiðleiðir séu ekki lagðar meðfram umferðarþungum akvegum af öryggisástæðum fyrst og fremst, en einnig vegna hávaðamengunar frá umferð sem hefur áhrif á reiðmennskuna.   Kappkosta ætti að leggja reiðleiðir í fjarlægð frá akvegum og hafa m.a. í auknu mæli hliðsjón af fornum reiðleiðum.
 
4.    Er þinn flokkur tilbúinn að beita sér fyrir því að hestaíþróttir verði viðurkenndar sem sérstök námsbraut í framhaldsskólakerfinu, þannig að þeir sem ljúka þar námi öðlist réttindi til t.d. tamninga, þjálfunar og að taka að sér og leiða hópa í ferðamennsku á hestum ?

Svar Sjálfstæðisflokksins:
Það er rétt að framboð af námsefni og námsgreinum í hestafræðum við Fjölbrautarskólann á Selfossi og reyndar einnig á Sauðárkróki hefur gefist vel og skilað góðum undirbúningi í  þátttöku í starfi innan hestasamfélagsins og fyrir aukna menntun á sviði hestafræða í sérskólum landsins.  Nýsamþykkt framhaldsskólalög stuðla enn frekar að þessari þróun, þar sem valfrelsi skóla í framboði á sérhæfðum námsgreinum og valfrelsi nemenda í skipulagningu náms er aukið.  
Sjálfstæðisflokkurinn telur að hestasamfélagið eigi sjálft að móta hugmyndir sínar um stigskiptingu í námi innan hestafræða og er tilbúinn að skoða allar slíkar hugmyndir með opnum huga. 

5.    Er þinn flokkur tilbúinn eftir kosningar til að skoða skattalegt umhverfi hestamennskunnar með það að markmiði að minnka kostnað þeirra sem stunda hestamennsku?

Svar Sjálfstæðisflokksins:
Sjálfstæðisflokkurinn telur að skattleggja eigi hesthús eins og aðra frístundabyggð, en í yfirgnæfandi tilvikum er um frístundastarfsemi að ræða.  Þar sem sannanlega er hægt að flokka hesthús undir atvinnuhúsnæði skuli vera samræmi í skattlagningu slíkrar atvinnustarfsemi í þéttbýli og dreifbýli. Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn að skoða lagasetningu til að tryggja slíkt jafnræði ef talið er nauðsyn á. 

6.    Er þinn flokkur tilbúinn til að beita sér fyrir lagabreytingu þannig að allir þeir sem eiga og rækta íslenska hestinn sitji við sama borð þegar kemur að ákvarðanatöku m.a. um ræktunarmarkmið íslenska hestsins og á hvaða rannsóknir tengdar íslenska hestinum skuli lagðar áherslur á, á hverjum tíma?

Svar Sjálfstæðisflokksins:
Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekki afstöðu til þessa máls, enda er um að ræða málefni sem eiga að ráðast innan hestasamfélagsins sjálfs.


7.    Er þinn flokkur tilbúinn að beita sér fyrir því að LH njóti sömu meðferðar af hálfu ríkisvaldsins og t.d. önnur félagasamtök sem ríkið styrkir til mótahalds um landið?

Svar Sjálfstæðisflokksins:
Landsmót hestamanna á að meðhöndla eins og hvern annan íþróttaviðburð og sitja við sama borð og aðrir íþróttaviðburðir í þeim efnum.  Aðra þætti landsmótsins sem snýr að skemmtanahaldi á að meðhöndla með sama hætti og annað skemmtanahald frá hendi stjórnvalda.

Með bestu kveðju, Ásta Möller, alþingismaður