Sigurbjörn stórskemmtilegur

Félag tamingamanna stóð fyrir sýnikennslu með tamningameistaranum Sigurbirni Bárðarsyni þann 30.des. síðastliðinn. Félag tamingamanna stóð fyrir sýnikennslu með tamningameistaranum Sigurbirni Bárðarsyni þann 30.des. síðastliðinn. Sýningin var haldin í reiðhöll Gusts  í Kópavogi og var mjög vel sótt en rúmlega 160 manns sóttu sýninguna á þessum næstsíðasta degi ársins 2010.

Sigurbjörn fór á kostum við kynningu sína á ýmis konar beislabúnaði sem var mjög fróðleg og skemmtileg. Týndi hann upp úr stórum poka alls konar beislabúnað, fjallaði stuttlega um hvert mél, beisli og múl fyrir sig og við hverskonar vinnu hver hlutur hentaði. Varð honum tíðrætt um svokallaða „miðhjáleigu“ eins og hann kallar það, sem er millibitinn í þríbrotnum mélum. Áhorfendur spurðu Didda spjörunum úr og lá meistarinn ekki á góðum ráðum.
Eftir kynninguna, sem þróaðist út í nokkuð ítarlegan fyrirlestur, var gert stutt kaffihlé á meðan Sigurbjörn lagði á gæðingshryssuna Líf frá Möðrufelli. Sýndi hann í reið hvernig hann hefur þjálfun á hrossum sínum í upphafi vetrar með hinum ýmsum fimiæfingum. Þá fjallaði hann stuttlega um hverja æfingu fyrir sig, kosti hennar og galla. Því næst jók hann hraðann og sýndi m.a. fimiæfingar og hraðabreytingar á tölti. Líf er í fantaflottu formi, þrátt fyrir stuttan innitíma og vakti hryssan, sem og samspil hennar og knapans, hrifningu áhorfenda. Mjög fróðlegt var að fylgjast með því þegar Sigurbjörn sýndi mismunandi form á hestinum á tölti og hvernig hesturinn beitti sér í mismunandi höfuðburði. Hann lagði mikla áherslu á það að leyfa hestinum „að opna kverkina“ þegar hesturinn væri beðinn um að auka hraðann á tölti og að halda í „sjálfið“ í hestinum. Í lokin sagði Sigurbjörn mikilvægt að halda í íslenska reiðhefð og vernda hana þrátt fyrir að nýta mætti ýmislegt fróðlegt úr klassísku reiðmennskunni með.
Stórskemmtileg sýnikennsla meistara Sigurbjörns og fær hann bestu þakkir fyrir.